Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:08:33 (2575)

2003-12-04 11:08:33# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Slæmu fréttirnar eru að á tímabili 1990 til ársins 2001 hækkaði lyfjakostnaður hins opinbera um 28% umfram neysluvísitölu. Athyglisverðu fréttirnar eru á hinn bóginn að á sama tíma hækkaði kostnaður hins opinbera við sjúkrahús og heilsugæslu um 50% umfram neysluvísitölu. Stjórnvöldum hefur þannig tekist betur að hemja lyfjaútgjöld en önnur heilbrigðisútgjöld hér á landi og þurfa að halda því áfram með öllum tiltækum ráðum.

Því til staðfestingar má benda á að á sama tímabili jókst heildarkostnaður ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu með viðmið í landsframleiðslu um 12% en kostnaður vegna lyfja og hjálpartækja lækkaði á hinn bóginn um 3,7% miðað við landsframleiðslu. Þessar upplýsingar má lesa úr gögnum frá Hagstofu Íslands. Þessar niðurstöður eru sérstaklega merkilegar fyrir þær sakir að þessu er þveröfugt farið í ýmsum Evrópulöndum. Þar hefur lyfjakostnaður hækkað langt umfram annan kostnað í heilbrigðisþjónustu.

Það má hins vegar til sanns vegar færa að lyfjaverð á Íslandi er almennt hærra en í öðrum löndum. Því er haldið fram að fákeppni á lyfjamarkaði sé um að kenna en það er einföldun á málinu. Hækkun lyfjakostnaðar á undanförnum árum hefur verið rakin um 40% til aukningar á magni, um 25% til nýrra og dýrari lyfja og um 35% til hærra lyfjaverðs. Ástæður hærra lyfjaverðs eru raktar til flutningskostnaðar, smæðar markaðarins, að lyf bera virðisaukaskatt og þess að ný og dýr lyf eru fjót að komast í notkun.

Ekki má heldur líta fram hjá þeirri staðreynd að lyfjaverði á Íslandi er stýrt af stjórnvöldum og hefur lyfjaverðsnefnd tekið mið af þeirri meginreglu að lyfjaverð megi vera allt að 15% hærra hérlendis miðað við aðrar þjóðir vegna smæðar markaðarins.

Í lokin. Í allri umræðu um lyfjamál má ekki gleyma því að lyf bæta lífsgæði og bjarga lífum. Við upplifðum kraftaverk nýverið þegar ungur drengur komst óskaddaður frá nær drukknun. Kraftaverkið fólst ekki síst í nýju lyfi og þekkingu og sköpunargáfu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna að nýta lyfið til björgunar lífs. Gleymum því ekki.