Lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:26:04 (2582)

2003-12-04 11:26:04# 130. lþ. 42.95 fundur 209#B lyfjaverð og fákeppni á lyfjamarkaði# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á síðasta ári var lyfjakostnaður hér áætlaður um 13 milljarðar kr. Það þýðir í rauninni að hvert prósentustig til sparnaðar er um 130 millj. kr. Hér er um verulegar upphæðir að tefla. Því hljótum við að spyrja: Hvað ræður verðlagi? Hvað stjórnar í raun útgjöldum?

Hér í umræðunni hefur verið farið nokkuð um samkeppnismarkaðinn á þessu sviði og er litlu við það að bæta. En það eru ekki lyfjafyrirtækin og það eru ekki lyfjaverslanirnar sem ákveða hvaða lyf notuð eru hverju sinni. Læknar ávísa á tiltekin lyf. Við hljótum þess vegna í þessari umræðu að beina augum okkar dálítið að læknum.

Árósaháskóli í Danmörku lét gera úttekt á síðasta ári. Þar kom í ljós að lyfjafyrirtæki verja sem nemur u.þ.b. 100 þús. dönskum krónum á hvern lækni til kynningar- og fræðslustarfsemi, eins og það er kallað, og það er meginmarkhópur lyfjafyrirtækja enda ávísa læknar á lyfin. Jafnframt er vitað að hér er rík tilhneiging meðal lækna að ávísa á dýrustu lyf jafnvel þó að sambærileg og ódýrari lyf séu til staðar. Alþekkt er líka og kunnugt að læknar þiggja reglulega góðar veislur og dýrar utanlandsferðir á vegum lyfjafyrirtækja. Ekki þarf mikla spekinga til að sjá orsakasamhengi þarna á milli.

Þetta er grafalvarlegt mál, hæstv. forseti. Ég tel að þetta fyrirkomulag sé siðferðilega rangt. Ábyrgðin er gífurlega mikil því að hér er um miklar upphæðir að ræða. Ég ítreka að 1% í sparnaði er um 130 millj. kr. Þangað verðum við að beina augum okkar. Ég hvet Samkeppnisstofnun og Lyfjaeftirlit til þess að huga að þessum þætti því að það eru jú læknar sem efna til útgjaldanna.