Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:35:04 (2586)

2003-12-04 11:35:04# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum. Sömuleiðis mæli ég fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Eins og rakið er í greinargerð með fyrra frv. er með því lagt til að felldur verði niður einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu tóbaks. Samkvæmt frv. er þó áfram tryggt að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hafi einkarétt á heildsölu á tóbaki. Auk þess skal ÁTVR tryggja að allt tóbak, hvort sem það er flutt inn frá útlöndum eða framleitt hér á landi, sé merkt í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Innkaupareglur ÁTVR munu gilda áfram og tryggja jafnræði gagnvart öllum birgjum. Þrátt fyrir að frv. tryggi áfram einkarétt ÁTVR á heildsölu á tóbaki verður ekki um að ræða takmörkun á innflutningi tóbaks. Innflytjendur þess munu alfarið stjórna því magni og tegundum sem fluttar verða inn. ÁTVR verður eingöngu milliliður milli innflytjenda tóbaks og smásala.

Aðdragandi þessa frv. er sá að með breytingu á bókun 3 við EES-samninginn, sem tók gildi 1. janúar 2002, var vörusviði samningsins breytt þannig að nú fellur tóbak undir almennar reglur EES-samningsins um frjálst flæði vara. Í 16. gr. EES-samningsins er sú skylda lögð á samningsaðila að tryggja breytingar á ríkiseinkasölum í viðskiptum þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara aðildarríkja ESB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vöru. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur í kjölfar þess að tóbak var fellt undir vörusvið EES-samningsins, frá og með 1. janúar 2002, gert athugasemdir við einkarétt ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki. Telja verður einsýnt, með hliðsjón af dómafordæmum Evrópudómstólsins, að núverandi einkaréttur ríkisins á innflutningi og framleiðslu á tóbaki sé andstæður ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga.

Frumvarpið felur í sér ákveðnar breytingar á gildandi fyrirkomulagi. Í dag er staðan sú að ÁTVR hefur einkarétt á innflutningi og framleiðslu tóbaks. ÁTVR hefur því flutt inn og framleitt tóbakið, tryggt að tóbakið sé merkt og lagt á það tóbaksgjald áður en smásalar hafa getað nálgast vöruna.

Þrátt fyrir að einkaleyfi ríkisins á innflutningi tóbaks verði fellt niður samkvæmt frumvarpi þessu verður hlutverk ÁTVR engu að síður verulegt. Líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir mun ÁTVR tryggja merkingar tóbaks og álagningu tóbaksgjalds. Verður því allt það tóbak sem flutt er inn til landsins eða framleitt hér á landi og ætlað til sölu keypt af ÁTVR samkvæmt innkaupareglum fyrirtækisins til heildsöludreifingar þar sem tryggt verður að merkingar á tóbakinu hafi farið fram sem og álagning tóbaksgjaldsins. Því verða í raun engar grundvallarbreytingar á þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur að undanskildu því að ÁTVR mun ekki lengur hafa einkarétt á innflutningi og framleiðslu tóbaks.

Varðandi síðara frv., virðulegi forseti, þá er það fylgifrv. og leiðir sú breyting sem þar er lögð til af fyrra frv. Í síðara frv. er lagt til að ÁTVR leggi áfram á og innheimti tóbaksgjald af tóbaksvörum sem fluttar hafa verið til landsins eða framleiddar hér á landi. Vegna eðlis hins frv., sem felur í sér afnám einkaleyfis ÁTVR til framleiðslu og innflutnings tóbaks, þarf að gera þessa breytingu til að tryggt verði að allar tóbaksvörur lúti sömu lögmálum hvað varðar álagningu tóbaksgjalds.

Nú vildi ég leggja til, herra forseti, að báðum þessum málum verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu og jafnframt vísað til 2. umr.