Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:43:11 (2589)

2003-12-04 11:43:11# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þar sem þessum frumvörpum er eðlilega vísað til efh.- og viðskn. langar mig að draga fram hinn þáttinn, þ.e. þátt heilbrigðissjónarmiða. Í raun finnst mér ekki óeðlilegt að heilbr.- og trn. skili áliti á þessu frv. þar sem allar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi geta haft einhver áhrif á sölu á þessum vörum.

Ég vil taka fram að ég er hlynnt því að við eflum ÁTVR og njótum þess áfram að hafa þá sérstöðu sem við höfum, að vera með ríkisrekna áfengissölu og áfengisverslanir. Ég væri alveg tilbúin að skoða þær breytingar að láta tóbakið fara sömu leið, að það verði selt í verslunum ÁTVR en ekki í smásölu um allan bæ. Ef samræma ætti heildsölu- og smásölukerfið ætti að gera það í þá átt.

Við þurfum að hafa í huga að þrátt fyrir að þessar breytingar séu gerðar með tilliti til EES-tilskipunar út af samkeppnisákvæðum þá eru uppi hugmyndir um að losa um þau höft sem í dag eru á sölu á áfengi og koma sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslanir. Ég held að við ættum að hugsa okkur tvisvar um áður en við förum í skipulagsbreytingar varðandi ÁTVR og skoða þá þróun sem er í samfélagi okkar varðandi notkun á áfengi og sterkum efnum, hver aðsóknin er að áfengismeðferðarstofnunum og hvaða kostnað þjóðfélagið ber af áfengisnotkun, ekki síst barna og unglinga.

Þó að þetta séu ekki grundvallarbreytingar á ÁTVR þá hvet ég til að við styrkjum þá stofnun frekar en er í dag og stuðlum að því að sú stofnun geti sett upp fleiri sérverslanir og þjónað landsmönnum betur heldur en hún gerir. Það gerum við ekki með því að setja sölu áfengis í smásöluverslanir.