Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 11:54:03 (2595)

2003-12-04 11:54:03# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Ég tek eftir því að gert er ráð fyrir gildistöku laganna 1. júlí á næsta ári, þannig að það á án efa eftir að fá góða og ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins. (Gripið fram í.) Ekki vafi, segir hæstv. ráðherra. Ég er nú einn af þeim sem fá ekki í hnén þó að EFTA-dómstóllinn sendi okkur einhverjar fyrirskipanir. Ég tel að við eigum eftir megni alla vega að taka sjálfstæðar ákvarðanir og sjá með hvaða hætti við getum lifað við þær skuldbindingar sem við höfum gert gagnvart Evrópusambandinu. Ég tel reyndar að við höfum ekki gengið nógu langt í þeim efnum í ýmsu tilliti og vísa þar til raforkugeirans sérstaklega þar sem við hefðum getað sótt um undanþágur. Og ég tel mjög mikilvægt varðandi smásölu sérstaklega á áfengi og verslun almennt með tóbak og áfengi að við förum mjög varlega.

Ég vil aðeins segja það í tilefni orða hv. þm. Birgis Ármannssonar að ég er í hópi þeirra sem hafa viljað auka og bæta þjónustu ÁTVR. Og ég er á þeirri skoðun að það fyrirkomulag sem við búum við núna færi okkur bestu hugsanlega þjónustu. Áfengisverslun ríkisins í Reykjavík, sú stærsta sem hér er, Heiðrún, býður upp á meira vöruúrval en tíðkast í bestu sérverslunum nánast hvar sem er í heiminum. Þetta er staðreynd. Við eigum kost á því að kaupa nánast allar áfengistegundir. Fyrirkomulagið tryggir það líka að á smáum stöðum, fámennum stöðum á landsbyggðinni, er boðið upp á mikið úrval áfengra drykkja. Þar er mikið úrval. Og það væri miklu, miklu minna ef verslunin væri gefin frjáls eins og það heitir.

Er munur á því hvort það er ríkisstarfsmaður eða annar sem afhendir brennivínið? Það má vel hugsa sé að það séu aðrir aðilar og þá væru það væntanlega stóru keðjurnar sem hefðu þetta með höndum. Því almennt hefur það viðhorf verið uppi af hálfu þeirra sem talað hafa fyrir breytingu á þessu kerfi að það séu einhverjar girðingar, það séu ekki börn eða ungt fólk sem er að selja vínið, og þá þarf kostnaðarsamar fyrirbyggjandi aðstæður sem aðeins væru á færi þessara stóru keðja. Og þá væru það væntanlega Baugur og 10--11 sem hefðu þessa verslun með höndum.

Ég held að áður en við færum okkur út úr því umhverfi sem við erum í núna ættum við að gæta að okkur, ef það vakir virkilega fyrir okkur að bjóða upp á góða þjónustu. Og ég held líka að það sé staðreynd að Íslendingar kaupi áfengi frá framleiðendum á lægra verði en almennt gerist. Lægst verð í heiminum fær sænska áfengisverslunin af því að hún er stærsti áfengiskaupandi í heimi. Og þegar grannt er skoðað gildir hið sama um ÁTVR, við fáum áfengi á mjög lágu verði. Hið háa verðlag er tilkomið vegna skattlagningar. Það er af allt öðrum toga. En ég óttast að samkeppnin yki kostnaðinn fyrir neytandann þegar allt kemur til alls.

Það er eðlilegt að Verslunarráð tali máli sinna umbjóðenda. Ég geri mér grein fyrir því að það er þrýst mjög á Verslunarráð og slíka aðila í atvinnulífinu að reyna að fá þessa verslun til sín því hún skilar miklum ábata, en fyrir neytendur held ég að þetta yrði ekki til góðs.

Og þá ætla ég að ljúka máli mínu á því atriði sem hv. þm. vék að, hugsanlegum mótsögnum í mínu máli, að ég vildi í senn bæta þjónustu og takmarka aðgengi. Ég held að þetta geti alveg farið saman. Það sem ég hef hins vegar efasemdir um er að beita markaðsmekanismanum af fullum þunga eins og mundi gerast ef við færum þetta inn í frjálsa almenna verslun. Og þá held ég að niðurstaðan yrði sú, kannski vegna þess að ég hef svo mikla trú á þessum sama markaðsmekanisma, að neysla á þessum vörum ykist. Ég held að það geti alveg farið saman að bjóða upp á góða þjónustu, fjölbreytni, en um leið hófsama markaðssetningu sem ég held að sé best tryggð með því fyrirkomulagi sem við erum með núna. Skattborgarinn þarf ekki að greiða krónu með þessu. Þvert á móti er þetta honum til hagsbóta þannig að það eru engar byrðar lagðar á hann. Og þess vegna finnst mér sönnunarbyrðin hvíla á þeim sem vilja umbylta þessu ástandi.

Við erum búin að sjá nokkur dæmi, m.a. við umræðu fyrr í dag, um hvað loforð og fyrirheit og væntingar um frjálsa samkeppni hefur fært okkur í reynd. Við erum að sjá það á lyfjamarkaðnum. Við sjáum það á ýmsum öðrum sviðum. Við erum náttúrlega búin að kynnast hörmungarsögunni af bankamarkaðnum, í tryggingabransanum. Þannig að ég vara við því að við tökum opnum örmum þessum fagnaðarboðskap Verslunarráðsins og þeirra þingmanna sem eru helstir talsmenn frjálsra markaðsviðskipta hér. Ég virði þau sjónarmið að sjálfsögðu þó að ég sé þeim mjög ósammála. En áður en við ráðumst í breytingar mundi ég auglýsa eftir miklu betri umræðu og nánari rökstuðningi. Það hefur stundum skort svolítið á það í umræðum um þessi efni á Alþingi.