Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:00:34 (2596)

2003-12-04 12:00:34# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. 9. þm. Reykv. s. að við þurfum að eiga mjög ítarlegar og grundvallarumræður hér á Alþingi um heildarfyrirkomulag þessara mála og við klárum það ekki í þessari umræðu. Ég vil hins vegar draga fram tvennt úr máli hv. þm. Fyrst og fremst þau ólíku sjónarmið sem hann leggur til grundvallar afstöðu sinni. Annars vegar heyrist mér á hv. þm. að hann vilji takmarka aðgengi og hins vegar að hann vilji bæta þjónustu. Það sem ÁTVR hefur verið að gera á undanförnum árum er í rauninni mjög mikil aukning á þjónustu, mjög mikil fjölgun á útibúum, lenging afgreiðslutíma og þess háttar, auk þess sem ÁTVR hefur farið í ákveðið markaðsstarf sem hefur kannski ekki farið hátt, en er þó augljóst ef menn bera saman stöðuna í sambandi við vínbúðir fyrirtækisins núna og fyrir kannski tíu árum. Þar virðast því sjónarmiðin vera þau að það eigi að bæta þjónustuna og auka aðgengið t.d. með fjölgun útsala og lengingu afgreiðslutíma.

Þeir sem hafa mælt fyrir takmörkun á aðgengi að áfengi hafa einmitt nefnt þessa þætti á undanförnum árum, að með því m.a. að fjölga afgreiðslustöðum og lengja afgreiðslutíma sé aðgengið bætt og þar með aukist notkunin. Þarna finnst mér að menn verði að gera svolítið upp á milli sjónarmiða, annaðhvort erum við að tala um að það eigi að reka ÁTVR á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og takmarka aðgengi með því að vera með ríkiseinkasölu, eða, og það getur verið allt eins lögmætt sjónarmið, að það eigi að bæta þjónustuna og hætta sé á að ef einkaaðilar taki yfir rekstrinum, versni þjónustan. Ég hef ekki trú á því, en ég held að menn verði að gera upp á milli sjónarmiða.