Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:03:01 (2597)

2003-12-04 12:03:01# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held ekki. Ég held að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa tekið mikinn þátt í þessari umræðu. Ég hef jafnframt lagt fram tillögur hér á Alþingi um að útsölustöðum ÁTVR yrði fjölgað, t.d. á landsbyggðinni, þar sem allfjölmenn byggðarlög voru án útsölustaða. Ég vildi bæta aðgengið á þennan hátt. Því fer fjarri að ég vilji setja eins konar nálgunarbann kaupenda á verslunarstaðinn, þeir eiga að eiga greiðan aðgang að honum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að verslanir af þessu tagi séu í öllum helstu verslunarkjörnum.

Það sem við eigum hins vegar við, sem vörum við því að fjölga eða auka aðgengi með fjölgun staða, er að setja þetta inn í allar verslanir, allar sjoppur, allar bensínstöðvar o.s.frv. Við erum að tala fyrir þessu almenna fyrirkomulagi. Auk þess, og það tengist kannski öðrum þætti líka sem gæti svo sem verið óháð því hvort áfengi er selt í almennum verslunum og það er að við leyfum ekki auglýsingar. Og það er dapurlegt til þess að vita hvert ábyrgðarleysi framleiðendur t.d. á bjór sýna með því að reyna að komast fram hjá landslögum með alls konar sýndarmennsku. Mér finnst það ábyrgðarleysi. Það væri fróðlegt að heyra álit hv. þm. Birgis Ármannssonar á því, hvort hann taki undir það með mér að það sé ábyrgðarleysi af bjórframleiðendum að reyna að skjóta sér fram hjá landslögum á þennan hátt.