Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:04:53 (2598)

2003-12-04 12:04:53# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:04]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. síðasta ræðumanni um það að öllum ber að fara að landslögum, bæði framleiðendum á áfengum drykkjum og öðrum. Hins vegar má segja að þær auglýsingar, eða vísir að auglýsingum sem við höfum séð um áfengi hér á síðustu árum, sýna í rauninni hvað löggjöfin á þessu sviði er götótt. Ég hef talið þörf á að endurskoða hana vegna þess að ég tel að hún virki ekki. Ég verð hins vegar að segja það að mér finnst að eftir standi að hv. 9. þm. Reykv. s. verði að gera upp á milli hvort hann vilji standa vörð um ÁTVR á forsendum forvarna eða hvort hann vilji standa vörð um ÁTVR á grundvelli þess að fyrirtækið veiti góða þjónustu.

Í mínum huga er engin spurning um það að ef áfengissala yrði færð í hendur einkaaðila með einhverjum hætti, sem við getum rætt betur síðar hvernig væri rétt að standa að, mundi þjónustan ekki versna heldur batna. Eins og kom fram fyrr í máli mínu hef ég engar áhyggjur af því að breyting á fyrirkomulagi áfengissölunnar, þ.e. að færa það úr höndum ríkisins til einkaaðila, muni leiða til verra ástands í áfengismálum hérna. Ég held að þar komi allt önnur sjónarmið til. Ég held að þar snúist málin fyrst og fremst um upplýsingar og forvarnir o.þ.h. og bendi á árangurinn sem forvarnastarf hefur skilað t.d. í sambandi við sölu á tóbaki.