Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:09:10 (2600)

2003-12-04 12:09:10# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég verð stuttorður. Ég vil fyrst og fremst fagna efnisatriðum þessa frv. sem hv. fjmrh. hefur lagt fram en mér sýnist samt frv. vera enn eitt dæmi um að frelsi og frjálsræði þjóðarinnar komi frá Brussel en ekki frá núverandi ríkisstjórn. Hæstv. fjmrh. talaði um að frekari breytingar á þessari stefnu snerti fyrst og fremst heildarstefnu málaflokksins. Ég vil þá hvetja hæstv. fjmrh. eftir 12 ára setu hans flokks í ríkisstjórn að huga að þessari heildarstefnu málaflokksins því ég held að það sé ljóst að margt í henni á ekki lengur við og ég vil að sjálfsögðu setja stórt spurningarmerki við núverandi einkasölu ríkisins á áfengi.

Að lokum mundi ég telja það mikla tilbreytingu ef við fengjum aukið frjálsræði frá ríkisstjórninni, en ekki með faxi frá Brussel eins og venjan virðist vera.