Afgreiðsla fjárlaga

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 13:42:23 (2618)

2003-12-04 13:42:23# 130. lþ. 42.97 fundur 213#B afgreiðsla fjárlaga# (um fundarstjórn), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það hefur verið til skoðunar á undanförnum vikum í kjölfar hins svokallaða öryrkjadóms hvort hugsast gæti að ákvæði í frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem hér er til meðferðar orkuðu tvímælis hvað varðar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í ítarlegu lögfræðiáliti frá Skúla Magnússyni dósent sem unnið var á vegum ráðuneytisins kemur fram að hugsanlegt sé að svo kunni að vera. Það er niðurstaða hans að hætta sé á því að dómstólar teldu umrædda skerðingu vaxtabóta andstæða 72. gr. stjórnarskrárinnar, einkum í þeim tilvikum þar sem skerðing gæti verið veruleg.

Nú er auðvitað ekki þar með sagt að hægt sé að fullyrða að þessi ákvæði standist ekki stjórnarskrána þó að þetta standi í þessu lögfræðiáliti. Eigi að síður er það niðurstaða mín sem fjármálaráðherra og ráðuneytis míns og jafnframt niðurstaða ríkisstjórnarinnar að taka ekki áhættuna af því.

Þess vegna munum við leggja til, eins og þegar er komið fram í efh.- og viðskn., að þessum ákvæðum verði breytt, enda segir í áliti lögmannsins, með leyfi forseta:

,,Öðru máli gegndi ef um væri að ræða hlutfallsskerðingu vaxtabóta fyrir árið 2003 hjá öllum rétthöfum samkvæmt núgildandi reglum enda væri þá um að ræða tiltölulega litla skerðingu fjárhagslegra hagsmuna sem grundvallaðist á efnislegum mælikvarða og kæmi niður á mjög stórum hópi manna.``

Það er á þessum forsendum sem sú breytingartillaga er til orðin sem kynnt hefur verið í efh.- og viðskn. Hún mun fá sína umfjöllun þar. Við höfum ekki rekið á eftir því að það mál væri afgreitt. Það er mjög eðlilegt að gera það eftir helgina, hinkra eftir því áliti sem efh.- og viðskn. hefur beðið eftir. En það hefur engin áhrif að mínum dómi á þær fyrirætlanir sem lúta að efnislegum hliðum fjárlagafrv. og alveg ástæðulaust að gera því skóna að ekki sé unnt að taka það mál fyrir hér eins og ráðgert hefur verið og öllum kunnugt.