Afgreiðsla fjárlaga

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 13:46:42 (2620)

2003-12-04 13:46:42# 130. lþ. 42.97 fundur 213#B afgreiðsla fjárlaga# (um fundarstjórn), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi krafa er alveg fráleit og stangast algjörlega á við allar venjur þingsins, áratuga venjur. Það er mjög þekkt, eins og menn vita, að fjárlögin eru byggð á fjölmörgum afgreiðslum sem á eftir að afgreiða af hálfu þingsins. Iðulega eru meira að segja stórir hlutar af ákvörðunum gerðar með lögum eftir jól, í mars, apríl eða maí. Þar er um að ræða ákvarðanir sem snúa að tekjuöflun, niðurskurði o.þ.h. Fjárlögin eru byggð á setningu reglugerðarfjölda frá heilbrrh., menntmrh. og öðru slíku sem menn vita ekkert um á því stigi hvernig fer. En ríkisstjórnarmeirihlutinn á þinginu skuldbindur sig auðvitað til þess að vinna að því að lagagrundvöllurinn og innheimtureglur af þessu tagi séu til staðar svo að fjárlögin standist. Það eru fullt af öðrum hlutum sem menn gætu nefnt til sögunnar sem menn gætu ætlað að væru afturvirkir hlutir sem ekki eru gagnrýndir hér. Til að mynda hefur fjöldi manna sjálfsagt gert ráð fyrir því að hátekjuskatturinn mundi falla niður og unnið út frá því, því lögin voru dottin út. Ég heyri ekki að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé að mótmæla því að hátekjuskatturinn sé inni. Er hann að mótmæla því að það sé um afturvirka ákvörðun að ræða? Eða fer það bara eftir eigin vali og ábendingu og eigin smekk? (ÖJ: Það fer eftir því ...) Það fer eftir því hvort honum líka lögin eða ekki.

En það er ekkert á móti því að fjárlagafrv. sé afgreitt með þessum hætti. Síðan er það verkefni þingmeirihlutans að tryggja það að lagagrundvöllur og reglugerðargrundvöllur sé fyrir hendi til þess að tryggja stöðu fjárlaganna.