Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 14:27:55 (2633)

2003-12-04 14:27:55# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Nú við 3. umr. um fjárlög 2004 ber svo við að meiri hluti fjárln. ber ekki fram brtt. við frv. hvorki til aukinna útgjalda né tekna. Eftir 2. umr. þann 25. nóvember sl. hefur nefndin haldið áfram umfjöllun sinni um málið. Meiri hluti fjárln. leggur til nokkrar breytingar sem felast í millifærslum og leiðréttingum sem hafa ekki áhrif á heildarútgjöld frv. en gerð er grein fyrir þeim á sérstökum þskj. og frhnál.

Við lokaumræðu um frv. til fjárlaga ársins 2004 vil ég vekja athygli á að störf fjárln. hafa gengið einkar vel og að starfsáætlanir hafa gengið eftir að öðru leyti en því að þessari 3. og síðustu umræðu er flýtt um einn dag. Þannig er útlit fyrir að fjárlög verði afgreidd frá Alþingi á morgun, þann 5. desember, sem er fyrr en verið hefur. Eins og málið liggur fyrir nú við 3. umr. er gert ráð fyrir meiri tekjuafgangi en frv. sjálft hafði gert ráð fyrir. Tel ég þetta vera til marks um þann einbeitta ásetning stjórnarflokkanna að viðhalda styrkri efnahagsstjórn og stuðla að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika sem er eitt meginstefnumið stjórnarflokkanna.

Samkvæmt þessu hefur ekki gengið eftir það sem sumir aðilar á markaði virtust óttast þegar frv. var lagt fram þann 1. október sl. að í meðförum þingsins mundi tekjuafgangur verða minni en frv. gerði ráð fyrir.

Ljóst er að vegna fyrirséðra aukinna umsvifa í þjóðfélaginu á næstu árum verður okkur að takast að halda uppi aðhaldi í ríkisfjármálum. Það er mikilvægt og krefjandi verkefni að halda þannig á málum þegar efnahagsleg uppsveifla er og með fjárlagavinnu og þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir af hálfu meiri hluta fjárln. er tónninn sleginn í þessu sambandi.

Að samþykktum fjárlögum mun hlutverk og verkefni fjárln. breytast á næstu mánuðum frá því sem verið hefur nú á haustdögum. Fram undan er að veita nauðsynlegt aðhald hvað varðar framkvæmd fjárlaga næsta árs. Nefndin mun fjalla um hina ýmsu þætti ríkisrekstrarins með það að markmiði að ná fram sem mestu aðhaldi. Fjárlaganefnd Alþingis gegnir mikilvægu hlutverki í því sambandi.

Hæstv. forseti. Við lokaumræðu um fjárlög 2004 endurtek ég þakkir til fulltrúa í fjárln. fyrir mjög ánægjulegt samstarf við umfjöllun og vinnu í nefndinni. Einnig endurtek ég þakkir til starfsmanna ráðuneyta, stofnana og annarra þeirra sem nefndin hefur átt samskipti við. Og síðast en ekki síst færi ég þakkir til starfsfólks Alþingis fyrir störf þess sem eru okkur ómetanleg.