Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 14:33:54 (2636)

2003-12-04 14:33:54# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Boðað aðgerðaleysi af hálfu stjórnvalda í heilbrigðismálum er þegar komið á forsíður blaða. ,,Skerðing þjónustu er óhjákvæmileg``, segir í frétt Fréttablaðsins um Landspítalann. Er þetta það sem við eigum að búa við næstu mánuðina? Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar að ráðast svona á heilbrigðiskerfið? Það er alveg ljóst.

Í öðru lagi með samkomulagið við öryrkjana. Verið er að boða hér frumvarp sem gerir ítarlegri grein fyrir því hvernig þeim greiðslum verði háttað. Nú lá það alveg hreint fyrir í þeim samningi sem var gerður fyrir kosningarnar hvernig ætti að standa að því. Það voru aðeins eftir útreikningsatriði og framkvæmdaratriði, þannig að að mínu viti ætti ekki að þurfa neitt sérstakt lagafrumvarp til að taka á því. Hefði þá ekki verið eðlilegra að það lagafrumvarp lægi hér fyrir til kynningar a.m.k. um leið og við ræðum þessi mál hér á Alþingi þannig að ljóst sé hvað við erum að tala um, en ekki þennan stöðuga véfréttastíl, vísa í eitthvert frumvarp sem er hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og ráða kannski hvernig þessi umræða fer á þinginu í dag? Er ekki hægt að fá því frv. dreift áður en umræðunni er lokið?