Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:08:58 (2639)

2003-12-04 15:08:58# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerir að umtalsefni þá ætlun að skera niður sem svarar um 170 millj. í tengslum við atvinnuleysistryggingar og kallar eftir þingskjölum í því efni. Ég get upplýst, frú forseti, hv. þm. um það að ég á von á því að frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1955, verði dreift á Alþingi í dag. Það er stutt eftir af þeim tíma sem okkur er ætlaður við þingstörf fram að jólum þannig að reikna má með að hitt málið komi fram í þingsölum á næstu dögum.