Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:18:26 (2648)

2003-12-04 15:18:26# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Mikil er bjartsýni hv. þm. ef hún telur að hægt sé að fara yfir vanda heilbrigðisþjónustunnar í stuttu andsvari upp á eina mínútu, ég tala ekki um þegar ríkisstjórnin sjálf hefur glímt við þennan vanda í rúm 8 ár, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., og ekkert gengið.

Það sem ég var fyrst og fremst að benda á er nákvæmlega hið sama og hinn ágæti formaður minn hefur gert, að það verði að taka heildstætt á heilbrigðiskerfinu og breyta ýmsu í skipulaginu. Ég benti í þeim efnum á nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar sem staðfestir allt sem við höfum verið að segja. Ég benti á að ef ekkert yrði að gert mundum við að sjálfsögðu fá að upplifa það sama og við höfum gert á hverju hausti í mörg ár, að Landspítali -- háskólasjúkrahús verður einn liðurinn á fjáraukalögum fyrir árið 2004. Sú upphæð verður því miður ekki lægri, miðað við hvert stefnir, en við höfum horft upp á undanfarin ár.