Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 15:22:41 (2652)

2003-12-04 15:22:41# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst að það hefur eitthvað verið erfitt upp á síðkastið í þingflokki Framsfl. Þeir eru úrillir hver um annan þveran. Við verðum auðvitað að taka því eins og það er en þetta mál er auðvitað alvarlegra en svo að hægt sé að eyða því með einhverju slíku tali.

Það er mjög sérkennilegt að ætlast sé til þess, í annað sinn í andsvörum, að við ræðum frv. sem stjórnarflokkarnir eru væntanlega búnir að fjalla um býsna lengi. Við höfum ekki fengið að sjá það en því er lofað að við fáum að sjá það þegar líður á daginn. Það er voðalega erfitt að ræða slíkt frv.

En það er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að þetta frv. sé ekki fyrir löngu fram komið. Þetta var boðað með fjárlagafrv. í haust. Þetta var reyndar boðað strax á vordögum svo að nægur hefur tíminn verið. Einhver hefur vandinn verið varðandi frv. fyrst það hefur tekið svona langan tíma. Gleymum því ekki að ummæli ýmissa hv. þm. varðandi þetta samkomulag hafa verið nokkuð misvísandi miðað við það sem hæstv. ráðherra hefur sagt.