Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:00:53 (2659)

2003-12-04 16:00:53# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil að sumu leyti hv. þm. sem grípur í þau hálmstrá sem hann hefur til þess að verja það að hafa ekki náð því fram sem lofað hafði verið. Því hafði verið lofað að standa við þennan samning að fullu. Ég vitnaði áðan í ummæli hæstv. heilbrrh. í Morgunblaðinu 29. nóvember og get gert það aftur, með leyfi forseta:

,,Ráðherra tekur þó fram að aldrei hafi annað staðið til af sinni hálfu en að uppfylla samkomulagið að fullu. Sá milljarður, sem gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, verði greiddur út nú um áramótin en það sem upp á vanti verði greitt tólf mánuðum síðar.``

Það hefur því alltaf legið ljóst fyrir, alveg fram á daginn í gær, að þessi upphæð, miðað við það samkomulag sem gert var, lægi þarna um. Og að standa við gert samkomulag er nokkuð sem hver og einn á að gera.