Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:09:14 (2666)

2003-12-04 16:09:14# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Já, að við þetta verði staðið af myndarskap, jú, það er verið að stíga það skref hér þar sem þörfin er mest. Nú vitum við að fjármagn er ekki ótakmarkað til þessara mála og það þarf að stíga þessi skref eftir því hver þörfin er. Eins og ég sagði áðan þá er athyglisvert að skoða þessa vistunarmatsskrá, hún er ekki í takt við það sem hv. þm. er að segja.

Ég veit að það eru sérstakir hópar sem gera þessar skýrslur og störf nefndarinnar eru ábyggileg. Með því að skoða þessi 44 sveitarfélög sem hér eru, er meiri hlutinn af þeim í engri þörf, skráð núll, eða óskir um vistunarrými eru teljandi á fingrum annarrar handar. Á sama tíma er þetta stóra vandamál hér í Reykjavík sem verið er að stíga mjög stórt skref í átt til þess að leysa, eins og ég sagði áðan, 160 rými eru að komast í gagnið nú og á næstu sex mánuðum og það er vel.

Auðvitað þarf að huga að hinni dreifðu byggð líka. Ég nefni Akureyri þar sem 28 eru í brýnni þörf á að komast í hjúkrunarrými. En það þarf bara fjármagn til þess og það veit hv. þm.