Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 17:35:11 (2673)

2003-12-04 17:35:11# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Guðjón A. Kristjánsson (frh.):

Virðulegi forseti. Til þess að skerpa á minni manna er kannski rétt að rifja upp þau fáu orð sem ég hafði áður um þessi mál og víkja að því sem hefur verið hér til umræðu almennt í dag fram og til baka.

Ég var kominn þangað í ræðu minni, virðulegi forseti, að tala um niðurstöðu í því skjali sem barst hingað eftir hádegið, um mat á því hvort þær tillögur sem eru í fjárlagafrv. um skerðingu vaxtabótanna fái staðist stjórnarskrá og hvort rétt sé að setja lögin með þeim hætti. Niðurstaðan var sú, eins og ég gat um áðan með því að lesa niðurstöðukaflann, að það er mat viðkomandi lögmanns að það leiki mikill vafi á því að þetta ákvæði svona útfært fái staðist. Það er að sjálfsögðu byggt á þeim almenna rétti að réttindi fólks varðandi skatta og skyldur og annað sem lýtur sérstaklega að tekjum þeirra megi ríkisvaldið ekki gera afturvirkt svo að íþyngjandi sé fyrir þegna þjóðfélagsins. Það er sem sagt niðurstaða þessa máls, virðulegi forseti. Þar af leiðandi liggur fyrir, eins og hér var lýst í dag, að það verði lögð fram önnur útfærsla sem mun sennilega byggja á því að þetta skerðingarákvæði, eins og það hefur birst í fjárlögunum, taki ekki gildi fyrr en 2005. En í staðinn, til þess að ná inn tekjum í fjárlögin, komi flatur niðurskurður á vaxtabótum um 10% á næsta ári, 2004. Þannig hyggst ríkisstjórnin ná inn þeim tekjum sem áttu að koma í sambandi við vaxtabæturnar.

Allt að einu, virðulegi forseti, er sú niðurstaða sem ég dró hér fram í upphafi máls míns um að ríkisstjórnin væri að taka í auknum álögum á almenning með einum eða öðrum hætti allt að þremur milljörðum kr., þá fer lítið fyrir þeirri stefnu ríkisstjórnarflokkanna í kosningabaráttunni þegar stefnt var að verulegri skattalækkun. Þá var látið mikið með að veruleg lækkun á tekjuskattinum mundi aldeilis koma launþegum til góða. Ég held að ég muni það rétt, virðulegi forseti, að stjórnarflokkarnir hafi almennt verið að tala um 3--4% lækkun á tekjuskattinum í tillögum sínum.

Eina skattalækkunartillagan sem framkvæmd verður samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar núna hins vegar, er skattalækkun á hátekjumenn sem eru með yfir 350 þús. kr. á mánuði í tekjur, lækkun úr 5% í 4%. Þessar áherslur leggur ríkisstjórnin upp með í skattalækkunarmálum, að byrja á því að lækka skatta á hátekjufólk eða þá sem betur komast af í okkar þjóðfélagi.

Nú er ég ekki að halda því fram, virðulegi forseti, að 350 þús. kr. séu geysiháar tekjur. Vafalaust væri, með tilliti til þróunar kaupgjalds hér á landi á undanförnum árum, eðlilegt að hækka þessa viðmiðun um 50 þús. kr. og hafa viðmiðunina um 400 þús. kr. En allt að einu er ég andvígur þeirri forgangsröðun sem birtist í stefnu ríkisstjórnarinnar, að þetta skuli vera það sem sérstaklega er sóst eftir, að byrja á að lækka skatta á þá sem mestar hafa tekjurnar.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að stefna Frjálsl. í kosningabaráttunni var sú að leggja til tvennt í skattamálum, annars vegar að horfa til vanda barnafjölskyldna og koma með skattalagabreytingar sem dygðu þeim best sem hefðu mesta fjölskyldustærð og rétturinn væri barnanna og fylgdi fjölskyldunni og fjölskyldan gæti notað sér þann afslátt eða frádrag, hins vegar hækkun á persónuafslætti sem einnig hefði hækkað tekjur þeirra sem lægst hafa launin. Það er jú alveg vitað að maður sem hefur 400--500 þús. kr. á mánuði munar ekkert svakalega mikið um 10 þús. kr. sem kæmu út úr því að hækka persónuafsláttinn. En fólkið með lágmarkslaunin munar verulega um að fá auknar tekjur með hækkun persónuafsláttarins.

Þetta voru þær áherslur sem Frjálsl. lagði til í kosningabaráttunni. Þess vegna er það alveg ljóst, virðulegi forseti, að sú stefna sem ríkisstjórnin keyrir á í skattamálum, að byrja á að lækka skatta þeirra sem skástar hafa tekjurnar, er algjörlega í andstöðu við stefnu okkar í Frjálsl. Við teljum að það sé vitlaust forgangsraðað að fara svona í málin. Það er okkar niðurstaða og okkar skoðun.

Hitt er svo alveg ljóst, eins og ég fór yfir í upphafi ræðu minnar, að hinar ýmsu tilfærslur á álögum sem verið er að gera, ég nefndi bensíngjaldið, þungaskattinn, tilfærslu á tryggingagjaldinu, sjúkragjöldin, atvinnuleysisbæturnar o.s.frv., eru allar til þyngingar. Ef það er allt lagt saman og stendur óbreytt að ríkisstjórnin ætlar að taka tekjur í gegnum vaxtabæturnar upp á 600 millj. kr. er verið að tala um að álögur á almenning verði á bilinu 2.500--3.000 millj. kr., 2,5--3 milljarðar kr. Það liggur fyrir við þessa umræðu um fjárlögin og þeim fylgifrumvörpum sem munu fylgja, ef fram gengur sem horfir varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það sjá það allir sem fylgst hafa með umræðu í þessu þjóðfélagi að það er náttúrlega ekki verið að framfylgja þeirri stefnu að efna kosningaloforðin. Það getur eiginlega enginn haldið því fram, ekki einu sinni hæstv. samgrh., vinur minn, sem gengur hér fram hjá, þannig liggur bara þetta mál. Ríkisstjórnin situr uppi með það að á fyrsta starfsári sínu er hún að auka álögur á almenning en ekki að lækka þær. Ef svo heldur fram allt kjörtímabilið, hæstv. fjmrh., verður búið að láta jafnmikið inn í álögur á almenning, 20 milljarða kr., og menn ætluðu að lækka skattana um á kjörtímabilinu,

Þetta er nú framkvæmdin ef svo fer fram sem horfir. Ég vona vissulega fyrir hönd almennings á Íslandi að þetta verði ekki framkvæmdin því að ég tel að almenningi hafi verið lofað allt öðru. En gangi þessi stefna óbreytt eftir með þessu lagi sýnist mér að þetta verði niðurstaðan. Menn byrja sem sagt á því að auka álögurnar, breyta tilteknum gjaldaliðum og bensíngjöldum og öðru slíku, fara síðan í skattalækkanir fyrir kosningar og reyna að telja fólki trú um að loforðin hafi verið efnd. Ég hygg hins vegar, virðulegi forseti, að það sé bara því miður tóm lygi þegar upp verður staðið og menn geti þess vegna haldið áfram að æpa: Áfram Ísland, en það verður lítið að marka það.