Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 17:46:39 (2675)

2003-12-04 17:46:39# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór nákvæmlega yfir það í löngu máli mínu, eins og hv. 7. þm. Reykv. n. hafði orð á, að við í Frjálslynda flokknum flyttum tillögu til breytingar á fjárlagafrv. upp á 528,8 millj. kr. til að standa að fullu við það samkomulag sem öryrkjar og heilbrrh. gerðu í mars sl. Ég lýsti því einnig yfir að ef sú tillaga yrði felld mundum við styðja tillögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um 500 millj. kr. viðbótarframlag til að stuðla að því að staðið yrði við samninginn við öryrkja.

Ég lýsti því jafnframt yfir að að þeim tillögum felldum mundum við að sjálfsögðu styðja tillögu um að 1.000 millj. kr. færu í þetta samkomulag til að bæta hag öryrkja í þeim áfanga sem ríkisstjórnin hyggst stíga í þessu máli. En það er ekki gert í samkomulagi við öryrkja. Breyting á samningnum er ekki gerð í samkomulagi við öryrkja. Þetta er einhliða aðgerð ríkisstjórnarinnar. Samt er ljóst að hagur öryrkja mun batna verulega og við höfum ævinlega tekið það fram í Frjálsl. að við styddum mál sem við teldum til framfara og bóta í þjóðfélaginu.

Það skiptir engu máli hvort ríkisstjórnin er að flytja tillögu sem við teljum til bóta eða aðrir stjórnarandstöðuflokkar. Við styðjum mál ef við teljum þau til bóta. Það breytir því ekki að við samninginn er ekki staðið.