Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:06:22 (2679)

2003-12-04 18:06:22# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Hér var að sönnu ekki um neinn fagnaðarboðskap að ræða hjá hæstv. samgrh. enda svo sem ekki við því að búast því að hér var hann að gera grein fyrir hugmyndum sínum og tillögum um það hvernig haga beri niðurskurði upp á 1,6 eða 1,8 milljarða kr.

Ég vil hins vegar hæla hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þessar upplýsingar. Eftir þeim hefur verið leitað í fjárlagaumræðunni. Stundum á árum áður hefur nú gengið býsna illa að fá fram nákvæmar hugmyndir ráðherra um það hvernig standa eigi að niðurskurði eða frestun framkvæmda. Hér er það fram komið.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé unnt af praktískum ástæðum að biðja hann að ljósrita ræðu sína og láta dreifa henni á borð þingmanna því að það var auðvitað erfitt að fá þetta allt saman heim og saman.

Ég hef tvær litlar spurningar er lúta að mínu kjördæmi: Heyrði ég það rétt hjá hæstv. ráðherra að hægt væri að ljúka áföngum við annars vegar tvöföldun Reykjanesbrautar og hins vegar Vesturlandsveg þrátt fyrir að af yrði skorið upp á hvað, 180 millj. (Forseti hringir.) samtals?