Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 18:58:32 (2697)

2003-12-04 18:58:32# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að draga í efa einlægni hæstv. heilbrrh. Jóns Kristjánssonar í þessum málum. Ég sagði í ræðustólnum í síðustu viku að sennilega hefði honum liðist það oftar en flestum að koma í ræðustólinn og segjast vera á leiðinni, vegna þess, eins og ég sagði þá, að á íslensku gæti maður sagt að hann væri óvenjulega elskuleg manneskja. Ég trúi því vel að hann hafi lengi haft áhuga á þessum samningi en ég fullyrði engu að síður að hann hafi engan stuðning haft til þeirra miklu útgjalda sem honum fylgdi, fyrr en Framsfl. var kominn niður í átta prósentin. Þá fyrst fékk hann stuðning í ríkisstjórninni og stuðning samstarfsmanna sinna í Framsfl. við að gera þennan samning.

Ég trúi því líka að hæstv. heilbrrh. hafi ekki átt von á öðru en að félagar hans í Framsfl. mundu hjálpa honum við að ná þeim 500 millj. kr. í viðbót sem hann þurfti. Ég trúi því að hæstv. heilbrrh. hafi verið mjög brugðið að hafa ekki þann stuðning í ríkisstjórninni að geta sótt þessar 500 millj. kr. Annað eins hafa ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sótt af aukafjárheimildum. Ég trúi því að hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson hafi verið sleginn, þegar hann kom með tillögur eigin starfshóps upp á að 2/3 hlutar yrðu efndir núna en hann fengi þó þessar 500 millj. kr. 1. janúar 2005, yfir því að félagar hans í Framsfl. og ríkisstjórninni gætu ekki einu sinni ljáð honum stuðning sinn í því, jafnvel þótt hann væri búinn að lýsa því yfir í ræðustólnum síðast í síðustu viku að hann ætlaði að koma með 1.000 millj. kr. um áramótin og 500 millj. kr. í viðbót áramótin þar á eftir.

Ég segi það satt, virðulegur forseti, að ég vildi heldur eiga orðastað við marga aðra af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og stjórnarþingmönnum um þessi mál en hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson. En hjá því verður ekki komist. Hann ber ábyrgð á málinu. Og ég spyr ráðherrann aftur: Fáum við að sjá tillögu starfshópsins um lagabreytingu hér í þinginu?