Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 20:19:16 (2704)

2003-12-04 20:19:16# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[20:19]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Segja má að þetta fjárlagafrv. einkennist af nokkrum meginþáttum, skattahækkunum þvert á kosningaloforð, og þar með talinn er sérstakur landsbyggðarskattur í formi hækkaðs þungaskatts og bensíngjalds. Það einkennist líka af aðgerðum sem beinast að þeim sem síst mega við því, samanber skerðingu atvinnuleysisbóta, lífeyrisréttinda, sjúkratrygginga og vaxtabóta. Viðvarandi vandi stofnana, svo sem í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu, er látinn eiga sig og engin tilraun gerð til þess að vinna á honum. Öruggt er að við munum sjá framhaldsskólana, háskólana og heilbrigðisstofnanir um land allt á fjáraukalagafrv. næsta árs nema það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að vísa frá nemendum og skerða þjónustu á sjúkrahúsum.

Vandi framhaldsskólanna hefur minnkað en hann hefur ekki verið leystur. Þar er sömu sögu að segja og í fjölmörgum öðrum ríkisstofnunum, þær eru látnar axla útgjöld sem ríkið hefur stofnað til með lagasetningu eða öðrum aðgerðum án þess að fjármagn komi á móti. Dæmi um það er aukalífeyrissparnaður sem ekki hefur fengist bættur í fjárlögum eða aukafjárlögum og FS-netið svokallaða sem framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar verða að axla án þess að gert sé ráð fyrir því í fjárveitingum.

Í því dæmi er um verulegar upphæðir að ræða fyrir viðkomandi stofnun, eða samtals 73 millj. samkvæmt upplýsingum úr menntmrn. Sumir framhaldsskólar eru neyddir til að taka upp slíka tengingu án þess þó að hafa nokkur not fyrir hana þar sem þeir eru ekki með neina fjarkennslu og hyggjast ekki taka hana upp.

Upplýsingar um kostnað lá ekki fyrir þegar ákvörðun var tekin um að taka þetta kerfi upp. Það er alls ekki á færi fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem flestar eru að þjóna á fámennum, strjálbýlum og tekjulágum svæðum að standa straum af 100 þús. kr. afnotagjaldi á mánuði, auk stofnkostnaðar við brúna sjálfa sem er 600 þús. á hverja stöð. Það liggur þó í hlutarins eðli að með uppsetningu þessa nets sem er mikil framför og býður upp á mjög aukna og bætta þjónustu við fjarnemendur hvarvetna á landinu hafa menntamálayfirvöld reiknað með og væntanlega verið að hvetja til aukinnar fjarkennslu. Til hvers væri annars að koma upp 100 megabæta flutningsgetu með ærnum kostnaði ef ekki á að nýta hana?

Frú forseti. Af þessu tilefni má gjarnan minna á að meðal þeirra sem nýta sér þjónustu símenntunarmiðstöðvanna eru konur í miklum meiri hluta, allt að því 80%. Því háttar þannig til að konur sóttu sér síður menntun en karlar á vissu árabili hér á landi og það er því mikið hagsmunamál fyrir þær að hafa nú möguleika til þess að afla sér menntunar. Það má líka minna á að ef konur neyðast til að flytja burt með fjölskyldur sínar vegna þess að þær geta ekki aðlagað sig nýjum atvinnuháttum með menntun þýðir það enn frekari hnignun fyrir viðkomandi svæði. Ein fyrstu merki hnignunar eru þegar konurnar fara að flytja í burtu. Auk kostnaðar við aðalstöðvar símenntunarmiðstöðvanna sem borga, eins og ég sagði áðan, 100 þús. kr. á mánuði í afnotagjald fyrir FS-netið eru 25 minni staðir á landinu sem hver um sig greiðir 35 þús. á mánuði fyrir tengingu við FS-netið. Þetta eru stöðvar sem þjónusta nemendur símenntunarmiðstöðva, háskóla og framhaldsskóla víðs vegar af landinu.

Þennan kostnað hafa lítil og veikburða sveitarfélög axlað. Þau stóðu frammi fyrir því að taka kostnaðinn á sig en eiga að öðrum kosti ekki möguleika á fjarkennslu fyrir íbúa sína með þessum hætti. Kostnaður við þetta net er ásamt kostnaði við húsnæði og tækjabúnað útgjöld sem stærri sveitarfélög, sem hafa háskóla innan bæjarmarkanna, hafa ekki á sínum herðum. Þann kostnað ber ríkið enda er ríkinu ætlað samkvæmt lögum að greiða fyrir háskólanám. FS-netið er eitt af fjölmörgum dæmum þar sem ekki er horft á til enda.

Það var að mínu mati ágætisráðstöfun hjá fyrrverandi menntmrh. að gefa fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum frelsi til að þróast og móta starfsemina í samræmi við þarfir hver á sínu svæði. En það er kominn tími til að settur verði á lagarammi um starfsemina og horfst í augu við hvað það kostar að framkvæma það sem þeim er ætlað.

Tækifæri til menntunar er stór áhrifavaldur í búsetumálum fólks og einnig og ekki síður skipta þau sköpum um framtíðarþróun byggðar. Skólaganga íbúa landsbyggðarinnar er í flestum tilfellum styttri en íbúa Stór-Reykjavíkursvæðisins. Íbúar sem unnu við undirstöðuatvinnuvegi fyrri áratuga þurftu einfaldlega ekki á því að halda að ganga í skóla til að fá vinnu. Og vinna fyrir langskólagengið fólk stóð víða ekki til boða. En tímarnir hafa breyst. Störfum í undirstöðuatvinnuvegunum hefur fækkað og mun halda áfram að fækka og því þarf fólk að fá tækifæri til endurmenntunar.

En það kostar, það er staðreynd sem allir þekkja, og kostar sitt. En það kostar enn meir að gefa fólki ekki færi á að mennta sig við hæfi. Uppbygging í menntakerfinu er þörf og af hinu góða en hún þarf að byggjast á raunsæjum grunni. Þess vegna leggur Samf. áherslu á að komið verði til móts við aukna fjárþörf símenntunarmiðstöðvanna og framhaldsskólanna vegna FS-netsins.

Núna þegar við erum að hefjast handa við mestu framkvæmdir Íslandssögunnar með þekktri hættu á þenslu og ójafnvægi er mikilvægt að geta treyst því að traust tök séu á fjármálastjórn ríkisins. En góð hagstjórn felst ekki í því einu að setja fram áferðarfallegar áætlanir, heldur í því að setja fram raunhæf markmið og standa við þau. Samkvæmt því sem Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, skrifar í nýútkomið tímarit stjórnmálafræðinema lágu síðustu hagstjórnarmistök á árunum 1996--2001 í því að stefnan í ríkisfjármálum var ekki nægilega aðhaldssöm. Almenningur á Íslandi hefur í dag ástæðu til að bera kvíðboga fyrir hagstjórn næstu ára þar sem vaxtahækkanir og verðbólga kemur harðast niður á skuldsettum heimilum. Ríkisstjórnin hefur einnig sýnt, bæði nú og á fyrri kjörtímabilum, að almenningur er látinn axla byrðarnar þegar gæta á aðhalds en ekki þeir sem betur mega sín í samfélaginu.