Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 20:52:44 (2706)

2003-12-04 20:52:44# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[20:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um þessar fremur fornfálegu skilgreiningar hv. þingmanns á atvinnulífi. Ég vil benda honum á að skólar eru atvinnulíf, sjúkrahús eru atvinnulíf, veitustofnanir eru atvinnulíf. Þetta er gamaldags hugsun sem ég hafna, að skipta þjóðfélaginu upp á þennan hátt og skipta því upp í ábyrga og óábyrga. Þetta er gamaldags hugsun sem ég vísa til föðurhúsanna.

En það er annað sem mér fannst alvarlegra í málflutningi hv. þingmanns og það lýtur að heilbrigðiskerfinu. Hann segir: Við verðum að stöðva útgjaldaþenslu í heilbrigðiskerfinu almennt, óskilgreint.

Ég vísaði til þeirra gleðilegu tíðinda sem okkur voru sögð í sjónvarpsfréttum í kvöld, þ.e. að níu af hverjum tíu nýrnaaðgerðum verða núna framkvæmdar innan lands. Þetta er mikið framfaraspor sem eykur útgjöldin á Landspítalanum en sparar þjóðarbúinu mikla peninga. Það er þannig sem við þurfum að skoða þessi mál og fjárlögin með heildarhagsmuni í huga. (Forseti hringir.)

Ég hef líka miklar efasemdir um það að etja læknastéttinni og hjúkrunarfólki til að forgangsraða, oft á kostnað skjólstæðinga sinna. Hér er verið að boða hugsun (Forseti hringir.) sem ég tel mjög varhugaverða.