Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:00:07 (2712)

2003-12-04 21:00:07# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:00]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom víða við í ræðu sinni eins og venjulega en á einni mínútu er náttúrlega vonlaust að fara yfir allt. Mér er því nokkur vandi á höndum við að tína hér út það sem helst ætti að ræða. Ég vil þó nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa yfir stuðningi við tillögu okkar um að skorinn verði niður ferða- og risnukostnaður um 600 millj. kr. Ég geri ráð fyrir að við skoðum það mjög alvarlega næst þegar við fáum tækifæri til að bæta Alþingi inn í þetta ef það má verða til þess að hv. þingmaður komi með okkur í tillöguflutninginn.

Það er aðeins varðandi Landspítala -- háskólasjúkrahús sem ég verð að koma inn á þótt stuttur sé tíminn. Hv. þm. talar um að hann ásamt öðrum hv. þm. hafi sérstaklega verið að skoða þetta sjúkrahús og þá væri auðvitað fróðlegt að fá að heyra álit hv. þingmanns á því sem kemur m.a. fram í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar, að meginvandamálið --- og er það þá í annað sinn sem það kemur fram frá þeirri stofnun --- sé að ekki er búið að skilgreina þá stefnu sem sjúkrahúsið á að starfa eftir. Hvernig er hægt að ætlast til þess að nokkur stofnun geti starfað þegar hún veit ekki nákvæmlega til hvers er ætlast af henni?