Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:01:20 (2713)

2003-12-04 21:01:20# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi fram og menn átti sig á því, alþjóð, að ég er sannfærður um að á umliðnum árum hafi stjórnendur Landspítala -- háskólasjúkrahúss verið að vinna gríðarlega þýðingarmikla grundvallarvinnu til þess að koma stjórnuninni til nútímans með því að búa til kostnaðargreininguna sem er grundvöllurinn að því að við getum fjallað um þetta á hlutlægan hátt. Það er rétt að þetta komi fram.

Um stefnumótunina er það að vissu leyti rétt hjá Ríkisendurskoðun að það eru ekki eingöngu stjórnvöld, heldur hefur hin íslenska pólitík, bara almennt í gegnum tíðina, haft þá stefnu eina að reyna að gera sem allra mest fyrir alla á öllum tímum. Það hefur verið hin pólitíska stefna allra stjórnmálaflokka sem við erum núna að lenda í öngstræti með.