Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:04:29 (2722)

2003-12-04 22:04:29# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvort það komi til greina að heimila sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og verja fjármununum til uppbyggingar atvinnulífi á Suðurnesjum.

Eins og kom fram í máli hv. þm. hefur, í einstaka tilfellum, andvirði verið varið að hluta til til atvinnuuppbyggingar á heimasvæði, en þá hefur ekki verið um háar upphæðir að ræða, kannski 50 millj. kr. í einu tilfelli sem ég man eftir og 100 millj. kr. í öðru. En hér erum við að tala um 10 sinnum, 20 sinnum þær upphæðir. Það er því ljóst að hér er um miklu meiri fjármuni að ræða. Ég vil hins vegar segja það að framsóknarmenn í Suðurk. hafa samþykkt ályktun þess efnis á síðasta kjördæmisþingi að ríkið selji hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og verji fjármununum til uppbyggingar atvinnulífi í Suðurkjördæmi. Og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur talað um þetta við mig oftar en einu sinni. Hins vegar, eins og hv. þm. sjá, er ekki uppi tillaga um það af hálfu ríkisstjórnar í tengslum við þessa fjárlagagerð að selja þennan hlut. Það hefði verið gert að mínu frumkvæði ef það væri á döfinni akkúrat núna (GÁS: ... var á móti því þá?) að setja þetta í frumvarpið, en svo er ekki. Hins vegar er ég alveg sannfærð um það að þessi hlutur verði seldur. Það er bara spurning hvenær það verður. Ég bið þá hv. þm. að segja mér hvaða atvinnumöguleikar og hvaða atvinnufyrirtæki það eru á Suðurnesjum sem kalla á milljarð kr. til að setja í sambandi við atvinnutækifæri.