Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:12:40 (2726)

2003-12-04 22:12:40# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég sá það í fréttum í gærkvöldi að hæstv. iðnrh. var valin, ef ég man rétt, kona ársins í einhverju tímariti hér í bænum. Ég held að það tímarit sé kallað Nýtt líf. Hafi ég tekið rétt eftir þá fékk hæstv. ráðherra þessi verðlaun og þessa einkunnagjöf vegna þess að hún hafði sýnt kjark og þor á yfirstandandi ári. Afskaplega fannst mér lítið fara fyrir þeim kjarki og því þori hér í satt að segja heldur snauðu andsvari hæstv. ráðherra við afskaplega einfaldri og heiðarlegri spurningu henni til handa. (Viðskrh.: Smá spurning þegar stórt er spurt.) Spurt var hvort ríkisstjórnin mundi ekki styðja viðleitni í þá átt, sem er eitt af megineinkennum þessarar ríkisstjórnar, að losa um fjármagn í hlutafélögum í eigu ríkissjóðs þar sem samkeppni er ríkjandi. Er ekki samkeppni að bresta á í þessum geira fyrir tilverknað ráðherrans sjálfs? Þá bregður svo við að hæstv. ráðherra kemur í þennan ræðustól og það var ósköp einfalt að skilja hennar mál, að af því að þessi tillaga og þessi hugmynd kemur frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, þingmanni Suðurnesjamanna, ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, þá var þetta algjörlega gagnslaust plagg. Og bætti því síðan við að þessi hugmynd hefði líka vaknað hjá hennar eigin flokksmönnum og -systrum suður með sjó og á Suðurlandi og á kjördæmisráðsfundi fyrir ekki margt löngu hefðu menn varpað þessu þar fram. Raunar hefði hv. þm. Hjálmar Árnason líka rætt um þetta við ráðherrann á hliðargöngum og sýnt þessu áhuga. Skyldi engan undra, eins og hæstv. ráðherra raunar gat um sjálfur og hlýtur að hafa fylgst með, að ástand þarna syðra er með þeim hætti að það er full ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af og ekkert í spilunum sem getur gert mann vongóðan um að þar bregði til betri tíðar, heldur þvert á móti bendir allt til þess, því miður, að þar fari hlutir á hinn verri veg vegna þess að það er ekki öll sagan sögð þegar kemur að samdrætti, uppsögnum í herbúðum varnarliðsins. Það er hlutur sem er augljóst mál að menn hafa lítið um að segja. Menn geta svo sem haft skoðun á því hvort það sé góð eða slæm þróun, en það breytir því ekki að því fólki sem missir vinnuna er jafnmikið sama hvort menn hafi á því ýmsar skoðanir hvort það sé gott eða slæmt að hafa þennan her í landi. Það er bara önnur Ella.

[22:15]

Hæstv. ráðherra, þannig að ég reki þetta öllu nánar, bregður sér síðan í það líki að gefa til kynna að tillöguflytjendur hafi ekki hugsað málið til enda, hafi engar hugmyndir á hraðbergi í þá veruna hvernig eigi að nýta þá fjármuni sem kæmu í hendur ríkissjóðs, opinberra aðila, með sölunni. Ég varð ekki var við það sérstaklega að hæstv. ráðherra hefði komið að því hvort hann hefði spurt framsóknarmenn á Suðurnesjum, hvort hann hefði spurt hv. þm. Hjálmar Árnason um það hvað hann hefði við einn eða tvo milljarða króna að gera til þess að auka atvinnulífið á Suðurnesjum. Maður skyldi ætla að hæstv. ráðherra hefði eitthvað ámálgað það í þessu ítarlega spjalli þeirra flokkssystkina hvaða hugmyndir hann hefði haft uppi, eða hefur hann kannski enga hugmynd um það? Hefur hann ekki hugsað málið til enda frekar en flokkssystkini hæstv. ráðherra á Suðurlandi? Var það þannig sem hæstv. ráðherra vó úr launsátri að eigin flokkssystkinum á Suðurlandi með því að skamma Albaníu en meina Kína? Var það það sem hæstv. ráðherra var raunverulega að segja hér í sínu stutta andsvari, að þessi hugmynd væri hreinlega ónýt, hún væri algjörlega vanhugsuð og ekki til neins hafandi?

Hún meinti það, þegar hún sagði að flokkssystkini sín í kjördæmisráðinu suður með sjó og á Suðurlandi öllu --- og formaður þingflokks Framsfl. --- sem hafa verið áhugamenn um það ásamt okkur samfylkingarmönnum að bregðast við þessum vanda, að þetta væri allt tóm sýndarmennska (Gripið fram í: Of miklir peningar.) og stærsti vandinn væri einmitt sá að þeir eru allt of miklir, peningarnir sem ríkissjóður átti í þessu einstaka fyrirtæki.

Hvers konar þvæla og vitleysa er þetta, herra forseti? Hvers konar endemis rugl er þetta? (Gripið fram í: Ég segi það nú ekki.) Ef peningarnir eru of miklir má dreifa þeim til annarra mikilvægra verka. Er það nú orðið stærsta vandamálið hjá hæstv. iðnrh. og hjá hæstv. ríkisstjórn að peningarnir eru of miklir, 2 milljarðar of hátt, það væri betra að eiga við þetta ef upphæðin væri 50 milljarðar eða 100 millj.?

Auðvitað er það þannig, eins og hæstv. ráðherra kom hér réttilega inn á, að menn hafa verið að eyrnamerkja sölu ríkiseigna með þessum hætti. Það er eins og mig reki minni til þess að menn hafi farið hér mikinn, og flokkssystkini hæstv. ráðherra ekki síst, þegar átti að fara að selja Landssímann. Þá var heldur betur búið að lofa hringinn í kringum landið manni og öðrum, sveitarfélögunum og öðru, þar áttu að vaxa heldur betur blóm á hvers manns gröf og í hvers manns garði. Þau eru mörg vandamálin á þessu ríkisstjórnarheimili. Þetta eru of miklir fjármunir sem ríkissjóður á þarna.

Ég kann alveg einfalda lausn á því, herra forseti, mjög praktíska lausn. Menn geta selt þetta í bútum, byrjað t.d. á 500 millj. ef það vex hæstv. ráðherra svona í augum að hún ráði ekki við að ráðstafa þessum fjármunum. Og hvernig á að nota peningana? Mér er spurn: Var það þannig hjá hæstv. iðnrh. á sínum tíma, þegar verið var að verja umtalsverðum fjármunum --- með réttu að minni hyggju --- til nýsköpunar, til eignarhaldsfélaga, til ýmissa verkefna, að menn vildu vita það nákvæmlega upp á punkt og prik áður en þessum fjármunum var ráðstafað til hvers ætti að nota þá? Nei, það er einmitt ekki okkar verkefni hér að segja nákvæmlega fyrir um það með hvaða hætti aðilar úti á akrinum, úti í atvinnulífinu, ætla að nýta þessa peninga. Þar treystum við jafnaðarmenn hugdirfsku, hugmyndum, þreki og þori fólks. Við viljum vinna með fólki í þeim efnum. Og ég er sannfærður um það af kynnum mínum af þeim Suðurnesjamönnum að ekki mun standa á þeim að nýta slíka fjármuni mjög vel til hagsbóta fyrir byggðarlagið og það fólk sem þar býr.

Það er ódýr, ómerkilegur fyrirsláttur hjá hæstv. iðnrh. að koma hér og bera við slíkum afsökunum. Það er í hæsta máta lélegt og enn þá lélegra er það að hún skuli í raun, að minni hyggju, stinga sín eigin flokkssystkini í bakið með þessum hætti. Mér finnst ekki mikill mannsbragur að því hjá konu ársins hjá Nýju lífi, það er enginn stæll á því. Þá veit hæstv. ráðherra hvað mér finnst.

Hitt vil ég þó þakka henni, að hún skuli hafa eirð í sér til að sitja hér. Er það ekki alveg öruggt að við erum hér í síðustu umræðu um fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2004? Er það ekki alveg víst? Mér verður litið hér yfir ráðherrabekkina og þar er sama sagan og fyrr. Hægra megin við mig eiga að sitja sex ráðherrar en þar er ekki einn einasti. Vinstra megin við mig eiga að sitja sex ráðherrar. Þar situr einn af því að hann var þrábeðinn um að eiga hér orðastað við þingmenn um þetta tiltekna mál sem ég var að ræða hér áðan. Það sem meira er, þetta er bara endurtekið efni. Við 2. umr. málsins ætlaði ég að eiga orðastað við allnokkra ráðherra. Ég varð því miður að ljúka hverjum kafla mínum með þeim orðum að ég gæti því miður ekki spurt um þetta eða spurt um hitt því að viðkomandi ráðherra væri ekki hér. Og nú er sama sagan.

Það sem meira er, ég gerði litla stúdíu á því, bara svona til gamans, en auðvitað fylgir því nokkur alvara: Hefur herra forseti áttað sig á því hversu margir ráðherrar hafa lagt eitthvað til málanna í þessari umræðu um fjárlög íslenska ríkisins? Þau eru að sönnu byggð upp sem rammafjárlög þannig að fagráðherrunum er gefið allmikið vald, þeir ráða miklu um það hvernig fjárlagafrv. lítur út og þeir ráða líka mjög miklu um það hvernig útfærslunni er háttað. Á ég að upplýsa um það hver aðkoma hæstvirtra ráðherra hefur verið að þessari umræðu sem ég hygg að hafi staðið í sennilega einar 30 klukkustundir, allt með öllu, þessar þrjár umræður, jafnvel meira, það gætu verið 30--40 klukkustundir? Mér sýnist í fljótu bragði að þeir séu þrír, hæstv. ráðherrarnir sem hafa komið að þessari umræðu með faglegum hætti og átt eitthvert erindi í þennan ræðustól þar sem þeir gera þingheimi og þjóðinni grein fyrir því hvernig þeir ætli að fara með það fé sem þeir sækja til Alþingis, á hvað þeir ætla að leggja áherslu á komandi fjárlagaári o.s.frv. Þá er ég að meina í ræðu.

Í fyrsta lagi eðli máls samkvæmt er það hæstv. fjmrh. Hann flytur þetta mál og kemst ekki undan því að fara yfir stöðu mála. Jón Kristjánsson, hæstv. heilbrrh., hefur sömuleiðis stigið í pontu og síðan í dag hæstv. samgrh. af því að hann átti hingað sérstakt erindi, þurfti að segja okkur frá því hvernig flýtiframkvæmdir í vegamálum þjóðarinnar, sem upplýst var um hér í mars síðastliðnum, urðu allt í einu að frestunarframkvæmdum. Það er upp talið, þetta eru þrír ráðherrar. Og nú er það þannig að hæstv. iðnrh. getur ekki verið hér lengur og gengur á dyr. (Iðnrh.: Ég fer ekki langt.)

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ætlar ekki langt. Ég veit ekkert um það. En auðvitað er eins með hana og ríkisstjórnina alla, hún er farin og búin, það er lykilatriði í þessu öllu saman. Metnaðarleysið og kraftleysið er allsráðandi. Ég hef nú verið hér um nokkurra ára skeið, herra forseti, og það hefur verið mitt hlutskipti hér, því miður síðustu níu árin, að vera í stjórnarandstöðu og þurfa að veita þessari ríkisstjórn dálítið aðhald. Ég segi það alveg eins og er að lakara hefur ástandið aldrei verið, slappari hefur engin ríkisstjórn verið og er þó ekki mjög langt til samjöfnuðar því að þetta hefur farið ársversnandi. Ég er þá ekkert sérstaklega að kvarta yfir því að ráðherrarnir haldi sig heima. Úr því sem komið er eru þeir best geymdir þar, þeir gera þá ekkert af sér á meðan.

Þegar ég vísa til þess að þessi ríkisstjórn sé algjörlega á fallanda fæti og orðin svo þreytt á sjálfri sér, ráðherrarnir hver á öðrum, svo ég tali nú ekki um stjórnarflokkana, ætla ég að nefna nokkur dæmi til sögunnar. Þau hafa verið að birtast okkur hér og þjóðinni allri á allra síðustu sólarhringum, ég ætla nú ekki að fara yfir lengra tímabil. Hér hefur þjóðin fylgst með því agndofa og verið eitt spurningarmerki í framan yfir því hvernig ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þessir stjórnarflokkar ætla enn og aftur, og nýbúnir þó, að leggja í stríð við okkar minnstu bræður og systur, öryrkja í þessu landi. Þeir mættu til leiks, böðuðu sig í ljósi fjölmiðla, prentmiðla og ljósvakamiðla, börðu sér á brjóst, sögðu að með því samkomulagi sem gert var í mars síðastliðnum skyldi verða tekið á þeim vanda sem vissulega var viðvarandi um slaka stöðu öryrkja, og þá sérstaklega ungu öryrkjanna.

Þann 10. apríl lá ljóst fyrir ríkisstjórninni og hverjum einasta manni sem hafði aðgang að þeim gögnum sem þá lágu til grundvallar að pakkinn kostaði 1.528.800 þús. kr. Samt halda þessir menn áfram að skrökva að þjóðinni, vitandi um það að ekkert lá fyrir, eftir því sem þeir segja sjálfir, um samþykki ríkisstjórnarinnar nema einn milljarður þegar kostnaður var þriðjungi meiri. Síðan halda þeir áfram þessum blekkingarleik fyrir framan þjóðina í heilan mánuð eða þar til kjördagur er að baki.

Herra forseti. Það er afleitt að skrökva og enn þá verra að skrökva að fólki sem getur ekki hönd fyrir höfuð sér borið. Mikil er skömm þeirra að þessari framkomu, og að þeir skuli svo leyfa sér núna að reyna að lappa upp á hlutina með þeim hætti sem boðaður hefur verið og birtist okkur væntanlega hér á þingskjali á morgun þar sem reynt verður að láta þennan milljarð ganga upp á þann veg að langflestir þeir sem njóta áttu bótanna bera skertan hlut frá borði. Mikil er skömm þeirra og ég undrast satt að segja, herra forseti, að þeir sofi vel á nóttunni, þessir menn sem bera sig þannig að.

Síðast í gær eða fyrradag vaknaði ríkisstjórnin allt í einu upp við vondan draum --- og hún á eftir að vakna upp við verri drauma en þann --- við atkvæðagreiðslu um tryggingagjald, þegar enn og aftur átti að skerða rétt fólks til sérstaks lífeyrissparnaðar, að þeir voru ekki lengur í meiri hluta hér á þinginu, ráðherrarnir. Þau áttuðu sig skyndilega á því, þessir háu herrar og þessar merkilegu frúr, jafnvel frúr ársins, að nú var farið að herða að. Nú var það ekki lengur þannig að hér gengi allt bara snurðulaust fyrir sig. Það var nefnilega kosið og þrátt fyrir blekkingarleikinn fyrir kosningar töpuðu þessir stjórnarflokkar umtalsverðu fylgi og eru hér með mjög nauman þingmeirihluta. Ég hef sagt það áður og segi það enn, bæði úr þessum stól og annars staðar opinberlega, að það kæmi mér ekki á óvart ef atkvæðagreiðslur færu fram hér á hinu háa Alþingi á borð við þær sem áttu að eiga sér stað í fyrradag og ríkisstjórnin yrði hreinlega undir. Og af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að við skynjum það öll og finnum hér í þessu húsi að andrúmsloftið milli stjórnarflokkanna er svo þykkt að það má skera það, það má hreinlega skera það. Í öryrkjamálinu finna það allir og skynja að hæstv. heilbrrh., hinn vænsti maður, hefur verið barinn niður, laminn niður. Hann vildi --- það sést algerlega --- og hann sagði það héðan úr þessum stóli mörgum sinnum, reyna að efna þetta samkomulag en að á þessu stigi máls gæti hann því miður ekki efnt það nema að hluta. Hann var svoleiðis laminn niður og ekki var nú mikil vörnin í félögum hans í ríkisstjórninni í Framsfl. Hæstv. utanrrh. og varaforsrh. var erlendis og var lítil hjálp í honum þegar kom að hinum mjúku málum, og ekki hefur maður orðið sérstaklega var við það að kona ársins hafi lagt honum þarna mikið lið. Þetta er dæmi um það --- og Framsfl. guggnaði auðvitað eins og fyrri daginn. Hann var laminn niður í þessu máli.

Sama kemur upp í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Það liggur algerlega ljóst fyrir og viðurkennir það hver einasti maður í þessum sal að fjárvöntun Landspítalans er upp á 1,5 milljarða kr. hið minnsta. Menn geta hér talað á sig gat eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson í þá veruna að þetta gangi ekki lengur, það verði að taka á þessum hlutum og gera þetta og gera hitt. Þetta er hann búinn að segja hér í níu ár og búinn að stjórna þessu jafnlengi. Það dugir mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Og öllum er það algerlega ljóst til hvers vilji heilbrrh. stendur, hann vill ekki sigla inn í nýtt fjárlagaár með þessa langstærstu einstöku heilbrigðisstofnun þjóðarinnar á þann veg að það sé bara ávísun upp á einn og hálfan milljarð, tvo milljarða. Enn og aftur kemur Sjálfstfl. og lemur Framsókn í hausinn þannig að hæstv. heilbrrh. verður að hrökklast frá. Svona skal það vera. Við skulum átta okkur á því hver fer með stjórnina í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

[22:30]

Herra forseti. Þriðja dæmið í þessa veruna blasir hér við okkur og er enn þá óútkljáð. Hér er nýr ráðherra Framsfl. sem við höfum allir verið af vilja gerðir að gefa sína 100 daga og sinn umþóttunartíma, nýr á þingi, nýr í ráðherraembætti, tældur til þess að ráðast að okkar minnstu bræðrum, atvinnulausum í þessu landi og gera tillögur um breytingar á réttindum þeim til handa. Það var akkúrat það sem þurfti nú í þessu samfélagi allsnægtanna þegar mestar áhyggjur efnahagsspekinga eru í þá veru að of miklir peningar séu í umferð en ekki hitt að þeir séu of litlir. Nei, þá er allt í einu fundin matarhola og átti að draga úr réttindum atvinnulausra þannig að þeir fengju ekki bótagreiðslu fyrr en eftir þrjá daga.

Það veit líka hver einasti maður hér inni, herra forseti, hvað gengið hefur á í þeim efnum á ríkisstjórnarheimilinu, hver einn og einasti maður sem eitthvað hefur fylgst með. Hæstv. félmrh. hefur verið að reyna að losna úr þessari spennitreyju og fá samstarfsflokkinn og félaga sína í ríkisstjórninni til að losa um, til að gefa honum tækifæri til þess að losna úr þessari hengingaról því auðvitað vill hann ekki sitja uppi með þá skömm þegar á fyrstu mánuðum í embætti að þurfa að fá þann merkimiða á sig og sín pólitísku afskipti að hafa ráðist fyrst allra að atvinnulausu fólki. En hún var ekki mikil hjálpin hjá félögum í ríkisstjórninni, ekki framsóknarmönnum á ráðherrabekknum, ekki formanni Framsóknar og þaðan af síður íhaldinu, sem lamdi Framsókn til hlýðni eins og fyrri daginn.

Að vísu tókst Framsókn hér fyrr í haust að svara eilítið fyrir sig þó í litlu hefði verið því þá réðust þær nokkrar fram konurnar í þingflokki Framsóknar --- ég man ekki hvort þær voru ein eða tvær --- og náðu höggstað á Sjálfstæðisflokknum í stóra vændismálinu. Þar náðu þær sér niður á honum en fengu að vísu högg til baka frá körlunum í íhaldinu, í stóra rjúpumálinu. Þar var nú svarað fyrir sig heldur betur. Jafnt í litlu sem stóru eru því ríkisstjórnarflokkarnir nú á sínu fyrsta missiri, herra forseti, nánast að klóra hvor úr öðrum augun. Þess vegna hlýtur maður að spyrja og ég hef nú gert það dálítið: Er líf í þessu? Er þetta ekki bara búið og farið? Ég held að svo sé þegar til kastanna kemur.

Ég tala nú ekki um stóra línuívilnunarmálið. Það er enn önnur Ellan í þessari sögu allri saman. Ég veit ekki hvar á að byrja það allt saman, hvar upphafið liggur og hvar endirinn í þeim efnum er. Allt að einu er það nú fráfarandi formaður þingflokks Framsfl. --- (GAK: Það eru tveir endar á línunni.) það eru tveir endar á línunni. Það er alveg hárrétt --- sem hefur verið fremstur í flokki þessara mála og hefur boðað það að á morgun eða hinn eða strax eftir helgina verði látið til skarar skríða og hann einasti maðurinn með samvisku í lagi ætli að standa við stóru orðin fyrir kosningar og láta efna þau eftir þær. Ég heyri ekki betur og sé ekki betur en að þeir Einararnir í Sjálfstæðisflokknum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og félagi hans hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstfl., ætli að vera með honum í liði. Þá fer að þrengjast um þennan þingmeirihluta sem mér var tíðrætt um áðan. (Gripið fram í.) Það fer að verða afskaplega lítið eftir af honum. Hann telur ef ég man rétt einhverja 34 karla og konur. Eitthvað er nú lítið eftir af honum og varadekkin fá, þessi margfrægu. Hér verða því fróðlegir dagar fram undan í þessum efnum.

Herra forseti. Ég nenni varla að tala um svikin hjá stjórnarflokkunum í skattamálum. Þau eru svo bersýnileg. Þau blasa svo við að ekki þarf að tala um það. Manni verður satt að segja flökurt að rifja það upp hvernig stjórnarflokkarnir fóru fram fyrir síðustu kosningar í þeim efnum. Það ólgar í mér maginn bara við að rifja það upp. Ég er í ræðustól Alþingis og tek varla áhættuna af því að fara djúpt í þá sálma. Hæstv. iðnrh. finnur afskaplega til með mér og er nú genginn á dyr og er þá ráðherrabekkurinn algerlega tómur, herra forseti. Það var ekki vonum seinna að svo væri. Við erum nú í 3. umr. fjárlaga, ekki satt? Ég hygg að svo sé.

Fyrir einhverjum dægrum síðan voru skattar hækkaðir á bensín. Landsmenn hafa nú aldeilis fundið fyrir því nú þegar. Svo tók ekki betra við. Þeir ætluðu að hækka líka skatta á þann hátt að lækka vaxtabætur fólks í þessu landi. Hugsið ykkur ruglið í þessum málflutningi. Fyrst er því lofað að hækka lán til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda upp í allt að 90%. Það er alveg svakalega flottur hljómur á því. Svo byrjar ráðherrann sitt fyrsta haust með því að ráðast að þessu sama fólki sem er búið að stefna sér í umtalsverðar skuldbindingar vegna íbúðarkaupa og íbúðarbygginga með því að slíta til baka 600 millj. í skerðingu vaxtabóta. Hvaða glóra er í þessu, herra forseti. Að vísu átta þeir sig nú á því, voru að fatta það núna rétt um þessi mánaðamót og voru að segja okkur frá því í þinginu í dag, raunar í efh.- og viðskn., að þetta mætti ekki því það færi í bága við stjórnarskrá landsins. En þeir eru svo sem vanir því stjórnarliðarnir að hafa aðeins komið við þá sömu stjórnarskrá og fengið nokkra dómana á sig. Þeir eru öllu vanir þegar að því kemur. Eftir sem áður verður fróðlegt að sjá hvort stjórnarliðar hafi ekkert lært á umliðnum slysum í þeim efnum, hvernig þeir fara að þegar kemur að grundvallarlöggjöf í landinu, sem er stjórnarskráin sjálf, og hvort þeir hafi ekki vit á því að draga þetta allt saman til baka og afla fjár í staðinn fyrir þessar 600 millj. sem spara átti á íbúðarkaupendum í landinu. Nei, það var ekki beint þannig sem þeir ætluðu að gera það.

Hæstv. fjmrh. kom hér í dag --- að vísu höfum við ekki séð frv. enn þá --- og sagði: ,,Við erum búin að finna nýja leið til þess að ná þessum peningum af íbúðarkaupendum og húsbyggjendum. Nú ætlum við bara að láta alla tapa, ekki bara láta fáa tapa miklu heldur alla tapa aðeins minna. Ekki ætla þeir að láta þetta fólk í friði. Nei, nei. Þeir ætla að ná þessum peningum, hækka þessa skatta, því auðvitað er þetta ekkert annað en skattahækkun í raun, tekjuöflun ríkissjóðs. Enn og aftur er öllu snúið á hvolf þegar líður á haustið að afloknum kosningum sem fram fóru á vori.

Herra forseti. Um heilbrigðismál gæti ég haldið langa ræðu. Það er bara einfaldlega þannig að menn kunna ekkert á verklagið í þessum efnum. Það er bara margsýnt mál. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem ég nefndi áðan til sögunnar talar gjarnan um það og hælist af því að alltaf fari meiri og meiri peningar í heilbrigðiskerfið og það sýni manngæsku stjórnarflokkanna að þeir vilji tryggja það að fólk fái grundvallarþjónustu. Á hinn bóginn talar hann um að allt of miklir peningar fari í þetta sama heilbrigðiskerfi og að við höfum algerlega sofið á verðinum þegar kemur að því að stjórna þessum málaflokki. Þetta rekst hvað á annars horn.

Ég segi einfaldlega og félagar mínir í Samf. að í fyrsta lagi hafa menn ekki gefið rétt. Ég rifja það upp nú að við 2. umr. máls fyrir viku síðan sátu hér stjórnarliðar --- þá sátu þeir hérna. Ekki sitja þeir hérna núna, herra forseti, því ekki er einn einasti þeirra í salnum hérna. Þeir eru búnir og farnir alveg eins og ráðherrarnir --- en þá sátu þeir hér og ýttu allir á rauðu takkana þegar hér var lögð fram tillaga um að breyta eilítið áherslum í heilbrigðiskerfinu á þann veg að styrkja undirstöðuna, að styrkja heilsugæslukerfið sem er auðvitað grundvöllur þess að kerfið standi undir sér. Nei, þá voru 200 millj. kr., sem er nú lítil upphæð, afskaplega lítil, svo sáralítið, bara punktur í hinu stóra dæmi Landspítala -- háskólasjúkrahúss --- nei, nei, af því það kom frá stjórnarandstöðunni þá var það aldeilis ómögulegt. Það hefði þó tryggt að hægt væri að opna þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á næsta ári. En það var fellt. Þá sátu menn glaðbeittir, fylltu salinn og ýttu á hinn rauða takka. Enginn er hérna núna.

Á sama hátt höfum við margoft bent á að tugum saman, sumir segja hundruðum saman, liggi sjúklingar á þessu hátæknisjúkrahúsi þar sem dagurinn kostar tugi þúsunda króna, tugi og aftur tugi þúsunda króna, en ættu heima á annars konar deildum, sumir á sjúkrahótelum, svo ég rifji upp hugmynd fráfarandi landlæknis, Ólafs Ólafssonar sem barðist mjög mikið fyrir því einmitt og skrifaði margar lærðar greinar um það. Sumir ættu ... (Gripið fram í.) Já, ég get nefnt marga fleiri til sögunnar því hv. þm. Þuríður Backman hefur komið að því máli þó á síðari skipum hafi verið. Aðrir eru liggja þarna inni sökum öldrunar en eiga að vera á hjúkrunardeildum annars konar stofnana. Sama má segja um geðveila. Við erum því að nýta þarna dýrustu úrræði þegar við gætum, þ.e. ef uppbyggingin væri rétt, ráðstafað peningum til annarra hluta. Svo er það hitt sem við vitum öll og auðveldara er um að tala en í að komast, að ákveðinn stjórnunarvandi er til staðar á spítölunum. Ég held við hljótum öll að vera um það sammála. Sérfræðingi Sjálfstfl. í heilbrigðismálum, hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, er mjög tíðrætt um hann. En hann gerir bara ekkert í því að leysa hann.

Svo eru það svona litlir hlutir eins og þeir að stjórnarmeirihlutinn hefur gjarnan viljað lagfæra heilbrigðismálin eða taka á þeim vanda sem þar er uppi með því að kippa kanínu upp úr hatti. Eitt þeirra ráða var að renna saman stóru spítölunum í Reykjavík, Borgarspítala og Landspítalanum. Það átti allan vanda að leysa. Auðvitað gerðist það ekki bara sisona. Auðvitað kostaði það líka verulega peninga sem hafa reynst þessu sjúkrahúsi mjög þungbærir og erfitt við að eiga og erfitt út úr að komast.

Pólitísk mistök á pólitísk mistök ofan hafa gert það að verkum að við erum í því ástandi sem nú er. Flóknara er þetta mál ekki, herra forseti. Af því ég veit að herra forseti er sá einasti í þessum þingsal í augnablikinu sem er tiltölulega hliðhollur stjórnarmeirihlutanum og ég sé að honum líður illa (Gripið fram í.) undir þessari orðræðu þá bið ég hann að koma þessum mikilvægu skilaboðum mínum rétta leið.