Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:43:22 (2727)

2003-12-04 22:43:22# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafði hér á orði að naumt væri skammtað í fjárlagafrv. Ég tek undir það að naumt er skammtað. En ég tel að horfa megi til þess að þetta sé fyrsti vísir að því sem við eigum von á næstu árin því eins og komið hefur fram hjá Seðlabanka Íslands og fleirum verður hæstv. ríkisstjórn að sýna sérstaka aðgæslu í ríkisfjármálum og draga úr opinberum framkvæmdum á því þenslutímabili sem fram undan er, á tíma virkjana- og stóriðjuframkvæmda. Ég tel að þótt ekki hafi allir viljað hlusta á það þá beri niðurskurðurinn sem kemur fram í frv. þess vott hvað varðar framlög til vegagerðar með tilliti til vegáætlunar, þar sem gert er ráð fyrir 1 milljarði minna til framkvæmda en vegaáætlun segir til um, að það sé bara fyrsti vísir inn í framtíðina.

[22:45]

Ég vil minna á það að við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum þunga áherslu á það þegar verið var að ræða þessar miklu framkvæmdir að við yrðum að horfa á hliðarverkanirnar, ruðningsáhrifin, að þetta væri ekki allt saman gull og grænir skógar, þetta væri ekki bara uppgangstímabil. Þetta tímabil kæmi niður á öðrum þáttum eins og opinberum framkvæmdum, og ég tel að við séum að sjá þess merki í þessu frv.

Herra forseti. Það er alveg auðséð að beiðnir um framlög til fjáraukalaga á næsta ári munu ekki verða minni en beiðnirnar voru á þessu ári. Ég held að stjórnarliðar í fjárln. geri sér það ljóst að eins og þessu fjárlagafrv. er nú ýtt úr vör muni mjög margar opinberar stofnanir, hvort sem það eru heilbrigðisstofnanir, skólar eða annað, eiga mjög erfitt með að halda bara í horfinu í þeim rekstri sem þær eru með í dag. Margar hverjar fara með halla frá yfirstandandi ári inn á næsta ár og sýna fram á það að þær geti ekki rekið sínar stofnanir nema með áframhaldandi halla þannig að vandi þessara stofnana vex. Það er því ekki neitt annað fyrir þær stofnanir að gera en að reyna að halda í horfinu og vonast til þess að fá eitthvað á fjáraukalögum á næsta ári eða, eins og ætlast er til, að þær hagræði. Mjög margar og langflestar þeirra hafa verið að gera það á undanförnum árum og þær eru komnar í botn, þær geta ekki hagrætt meira án þess að það komi niður á rekstrinum og það eru forstöðumenn þessara stofnana búnir að segja. Það er ekkert hægt að hagræða lengur, það er ekkert hægt að gera annað en að draga úr þjónustunni, þeir eru búnir að gera allt til þess að spara og þeir verða þá að standa frammi fyrir því. Það sem verra er, forstöðumenn fá ramma og er sagt að nú hafi þeir þennan ramma til að spila úr og það sé þeirra að koma með tillögur og þeir eigi að hafa það vald að hagræða innan stofnananna eða beita niðurskurði. Valdið og ábyrgðin sé þeirra.

Það er ofboðslega erfitt og er í raun og veru óásættanlegt að þessi ábyrgð sé sett yfir á t.d. framkvæmdastjóra sjúkrahúsanna, að standa frammi fyrir því að það sé á þeirra ábyrgð hvar á að skera niður. Í heilbrigðisþjónustu gerum við kröfur um að fá ákveðna þjónustu, og ef valið stendur um að loka annaðhvort fæðingardeild eða hjúkrunardeild, hver vill þá standa frammi fyrir þeirri ákvörðun? Það vill enginn. Enda þegar slík mál hafa svo komið inn á borð hv. Alþingis, þ.e. það hefur frést að loka ætti glasafrjóvgunardeildinni eða loka deildum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, þá hafa komið hávær mótmæli innan úr þessum sal gegn því að það sé gert og þess krafist að Landspítali -- háskólasjúkrahús haldi áfram að sinna sínu hlutverki.

Þetta gengur ekki upp. Og það er það sem við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum gagnrýnt, að hafa ekki rekstrargrunn síðasta árs til hliðsjónar og að fara inn í fjárlagagerðina með tilliti til þess en ekki með fyrirsjáanlegum halla.

Annað alvarlegt í þessu er andsrúmsloftið sem skapast á viðkomandi stofnunum, þetta eilífa hugarangur um að láta enda ná saman. Þetta spillir svo vinnugleði og starfsanda, fyrir utan þá ómældu krafta sem fara í það hjá stjórnendum að hafa þessa svipu alltaf yfir höfði sér og vita að þeir komast ekki klakklaust út úr þessu, enda er það ekki hægt.

Stofnunum er auk þess gert að ná inn tekjum, heilbrigðisstofnunum, með því að hækka komugjöld og þjónustugjöld og það er greinilega sú leið sem á að fara. Mér sýnist að þetta sé rétt byrjunin því að það verði þá farið að taka þjónustugjöld af enn fleiri þáttum en gert er í dag og þykir þó nóg um. Það má segja að þar sem farið er að borga í raun og veru fyrir hvert viðvik inni á heilbrigðisstofnunum þá séu það orðnar drjúgar tekjur sem koma af slíkum gjöldum en á móti álag á sjúklinga eftir því sem komugjöld og þjónustugjöld hækka.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns tel ég að þetta frv. beri þess vott að verið sé að taka tillit til tilmæla um aðhald í ríkisrekstri, og það er líka vísað til þess að taka verði tillit til atvinnugreinanna í landinu, það velti mikið á því að í komandi kjarasamningum verði tekið tillit til stöðugleika, að það sé mikilvægt að næstu kjarasamningar fari þannig fram að kaupaukinn verði ekki mjög mikill því að þá fari allt hér á hvolf og þensluáhrifin verði mikil. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að með tilliti til samninga við opinbera starfsmenn þá finnst mér innlegg hæstv. ríkisstjórnar til breytinga á lögum um opinbera starfsmenn ekki vera heppilegt í komandi kjarasamninga þar sem draga á úr réttindum opinberra starfsmanna hvað varðar uppsagnir og rétt þeirra til andmæla. Ég tel að ef halda eigi vinnumarkaðnum í jafnvægi og rólegheitum eigi ekki að byrja á því að koma með frumvörp sem hleypi öllu upp og í hörku fyrir fram.

Það kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, hv. 9. þm. Norðvest., að það séu erfiðir tímar fram undan að halda kjarasamningum og kjarakröfum í skefjum, sérstaklega með tilliti til útflutningsgreinanna og atvinnuveganna í landinu. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að sjávarútvegurinn hefur átt í miklum erfiðleikum upp á síðkastið hvað varðar sölu, útflutning á sjávarafurðum, og sömuleiðis ferðaþjónustan og þess vegna eru þessar greinar veikari fyrir en þær hafa verið undanfarin ár. Þetta eru líka ruðningsáhrif eða hliðaráhrif, m.a. af þessum stórframkvæmdum þar sem gengi krónunnar er svona sterkt, svo þetta spilar töluvert inn í fjárlagafrv. á mörgum stöðum.

Mig langar til þess að nefna einmitt í sambandi við þær miklu framkvæmdir á Austurlandi sem nú eru farnar í gang, að það vantaði alfarið allan undirbúning af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að þessari framkvæmd. Ég dreg ekki í efa að öll hönnun sé í lagi og hafi farið fram eins og þurfti, en það lá svo á að koma þessum stórframkvæmdum á meðan hæstv. ríkisstjórn hefði þau völd sem hún hafði --- og staðreynd að virkjunarframkvæmdirnar eru farnar í gang í þeim mæli sem þær eru --- að það vantaði allan undirbúning fyrir samfélagið sem átti að taka við þessu þó ekki væri annað en það að fjölga stöðugildum lögreglunnar, að undirbúa heilbrigðisstofnanir að undirbúa heilbrigðiseftirlitið og fjölga þar störfum og setja í það fjármagn til þess að vera virkt þegar framkvæmdirnar færu í gang. Allt kostar þetta fjármagn en ég tel að því fjármagni hefði verið vel varið til þess að forða því að það viðkvæma samfélag sem er fyrir austan, þarna er jú og hefur verið fámenni, verði fyrir enn meiri röskun en nauðsyn er af þessum miklu framkvæmdum. Ég tel að sveitarfélögin á Miðausturlandi eigi að fá umtalsverðan stuðning til þess að geta tekið á móti þessum miklu verkefnum. Þau eru öll í sama fjársvelti og önnur sveitarfélög á landinu, alla vega eins og er þar sem skatttekjur þeirra hafa ekki aukist, og það að taka á móti slíkum mannfjölda eins og á Héraði núna er sveitarfélögunum ofviða.

Við verðum líka að horfa til þess að ef hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að láta af stóriðjudraumum sínum og halda áfram í þessa átt þá verður hún að vera þess vel meðvituð, og það á við um Austurland núna, að til þess að draga úr neikvæðum áhrifum svo stórra vinnustaða eins og álverin eru, og þá sérstaklega á svo fámenn svæði eins og Austurland er, þá verður samhliða þessum miklu stóriðjuframkvæmdum, sem er hugarfóstur ríkisstjórnarinnar, að byggja upp og styðja innra net svæðisins, þ.e. að stórefla menntun og menntunarmöguleika, og þá sérstaklega til háskólanáms og verknáms, þ.e. allt nám á svæðinu. Það þarf líka að stórefla atvinnuþróunarfélögin til þess að styrkja aðrar atvinnugreinar og eins framhaldsskólana svo ekki sé talað um heilbrigðisþjónustuna. Þetta eru allt þættir sem verður að setja aukafjármagn í samhliða þessum miklu framkvæmdum. Það er stórslys að segja: Það þarf ekkert meira að koma inn á Austurland þar sem svona miklar framkvæmdir eru í gangi. Það er einmitt þarna sem fjármagn þarf að koma til þess að byggja annan strúktúr, annað netverk við hliðina á þessari stóriðju svo þetta verði ekki eins og þar sem verstu dæmin eru, þar sem átt hefur að bjarga byggð og búsetu með því að setja niður risavinnustaði og þá oft stóriðju af þessu tagi. Og þar sem ekki hefur verið hugsað um að efla annan atvinnuveg samhliða hefur þetta orðið eymd og volæði og farið á hinn versta veg. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin sjái fyrir sér þá ímynd, heldur horfi þá miklu frekar til þeirra staða sem bent hefur verið á og reynt að efla bæði menntun að aðrar atvinnugreinar samhliða svo ekki fari enn verr en getur stefnt í.

[23:00]

Mig langar til þess að nefna Fræðslunet Austurlands í þessu sambandi, því við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sérstaklega hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, höfum dregið fram nauðsyn þess að styrkja háskólana, við höfum ekki lagt sérstaklega fram tillögu um fræðslunetin, en við munum styðja tillögu sem hefur komið fram um styrkingu þeirra. Ég vil sérstaklega nefna Fræðslunet Austurlands sem gegnir mikilvægu hlutverki og er í sama vanda og önnur fræðslunet á landinu, þar sem háskólanámið er þegar byrjað, en það hefur ekkert verið tekið tillit til þess og það eru engir samningar hvað varðar háskólanámið innan fræðslunetanna. Ég sé ekki fram á annað en að annaðhvort leggist háskólanámið í gegnum netið niður eða að sveitarfélögin verði látin koma enn þá frekar að þessu. Eða þá að námskeiðsgjöld í annað nám en háskólanámið verði hækkuð enn frekar því það nám er látið fjármagna háskólanámið að hluta og það er ekki rétt. Það verður því í fyrsta lagi að gera samning um þetta háskólanám og hvernig það á að þróast og að það fari sérstakt fjármagn í það og sé aðskilið og að það fjármagn komi á þessu ári, því annars leggst þetta af, herra forseti.

Herra forseti. Það eru ótal mörg verkefni sem hefði verið vert að styrkja, sem annaðhvort fá ekki styrk eða fá hluta af þeim styrk sem þau óskuðu eftir. Þetta eru hvort heldur opinber, hálfopinber verkefni eða verkefni á vegum félagasamtaka og jafnvel á vegum einkaaðila. En það sem við þurfum að horfa til þegar verið er að veita framlög til ýmissa verkefna er það að langflest þeirra skapa ekki bara atvinnu og verðmæti í sjálfu sér, heldur mikinn virðisauka á því svæði sem þau eru unnin, eða þar sem framkvæmdin stendur eftir. Ég tel því að styrkir, þó þeir séu ekki mjög háir margir hverjir, geti samt sem áður gert gagn. Ég tel að það þurfi að horfa til þess að ef byrjað er á verki og byrjað að styrkja einhverja framkvæmd, þá eigi í fyrsta lagi að meta það vel í upphafi hvernig umsóknin er og hvort vel sé að verki staðið, og ef svo er og veitt er fé til verksins á að sjá til þess að það sé klárað.

Ég vil taka Skriðuklaustur sem dæmi. Á þessu ári fékkst fjármagn til þess að fara í viðgerð utan húss á þessu merka húsi sem Skriðuklaustur er, en síðan er engin króna, engin fjárveiting í fjárlagafrv. Maður skilur ekki eftir hús hálfmálað, það er bara þannig. En til þess að ljúka verkinu vantar 7,5 millj. kr. í verkið. Ég vil nefna þetta hér vegna þess að það er ekkert fjármagn á næsta ári í þetta verk til að ljúka því. Ég tel að það sé mikilvægt að segi maður A þá segi maður B og passi upp á að klára verkin.

Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., hefur í sínu frhnál. gert grein fyrir helstu áherslum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Eins hefur hér verið gerð grein fyrir brtt. við 3. umr. og afgreiðslu svo ég fer ekki yfir það. En við 2. umr. fjárlaga voru felldar þó nokkrar tillögur sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram, m.a. tillögu um að stórefla atvinnuráðgjafana hjá þeim átta þróunarstofum sem eru úti um land. Ég tel að það sé tímaskekkja að huga ekki að uppbyggingu þessara stöðva til þess að efla fjölbreytni í atvinnu á viðkomandi svæðum. Það voru líka felldar tillögur til að styrkja flutningskostnað, tannvernd barna, til að auka sálfræðiþjónustu, til þess að styrkja og auka velgengni þjóðgarðanna, til þess að styrkja GSM-símakerfið og fleira. Ég ætla ekki að telja þær allar upp, en í þessum tillögum koma m.a. fram áherslur okkar. Við viljum efla samfélagsþjónustuna og teljum að það sé veikleiki þessa frv. hve víða er dregið úr þeirri þjónustu.

Herra forseti. Það er búið að dreifa hér frv. sem lýtur að kjörum öryrkja. Þetta er frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum. Þetta frv. munum við taka fyrir og ræða að öllum líkindum næstkomandi laugardag. Hér er búið að gera mjög vel grein fyrir aðdraganda frv. Það sem mér finnst sárast í þessu máli er að öryrkjar höfðu miklar væntingar vegna samnings sem þeir töldu að mundi standa og gerður var í mars sl. við hæstv. heilbrrh. Ég tel að öryrkjar, Öryrkjabandalagið og hæstv. heilbrrh. hafi trúað því fram á þennan dag að umsamin upphæð, eða sú upphæð sem í raun og veru var niðurstaðan af þeirra samkomulagi og hvorugur mótmælti, þ.e. 1,5 milljarðar kr., kæmi hér inn í frumvarpið. En það er ekki. Og það er sárt, sérstaklega fyrir öryrkja.

Síðan finnst mér, það liggur við að ég segi bara eins og unglingarnir ,,bara fúlt`` að hugsa til þess að skömmu fyrir kosningar var þessum samningi haldið hátt á lofti og öryrkjar voru svo jákvæðir og bjartsýnir og gáfu Framsfl. svo góðan stimpil sem þeir máttu alveg gera eftir þessa gjörð. Ég hef þá trú að þetta hafi hjálpað Framsfl., ekki töluvert, heldur mikið í kosningunum. Þess vegna er kannski enn þá sárara að vita til þess að nú situr ríkisstjórn sem hugsanlega sæti ekki í dag ef það hefði verið ljóst hvernig afgreiðslan yrði.

Herra forseti. Við ræðum þetta mál frekar í heild sinni þegar það verður lagt fram sem þingmál.

Mig langar aðeins að segja nokkur orð um heilbrigðismálin. Það er búið að hækka framlög til heilbrigðismála um 1 milljarð. Það er hægt að hampa því og segja að það sé mikil hækkun. En þá verður að klára málið og greina frá því hvernig rekstrarafkoma heilbrigðisstofnananna var eftir núliðið ár og hvernig heilbrigðisstofnanirnar fara fyrirsjáanlega inn í næsta ár, með framlög sem þær vita og hv. fjárln. veit að dugar ekki fyrir rekstrinum. Þó að þetta sé 1 milljarður þá hefði það þurft að vera meira. Og þá er ekki verið að tala um að bruðla eða þenja út kerfið.

Á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er búið að sýna fram á það að með óbreyttum rekstri vanti 1,4--1,5 milljarða á árinu 2004. Samt erum við að gera kröfur um að auka starfsemina. Það sem getur gerst og hlýtur að gerast og ég trúi því að næstu daga verði neyðarfundir á því sjúkrahúsi til þess að leggja fram tillögur um það hvaða þjónustu eigi að skera niður. Inni á því sjúkrahúsi liggja yfir 130 manns, aðallega fullorðið fólk, sem gæti verið inni á hjúkrunarheimilum ef þau pláss væru laus, ef hægt væri að útskrifa. Verða þessir sjúklingar útskrifaðir og vísað út? Hver á þá að taka við þeim? Það er hægt að segja að þessir sjúklingar eigi ekki heima á LSH, þeir eiga heima annars staðar. Ber okkur þá skylda til þess að hafa þá á háskólasjúkrahúsinu? Verður hætt við nýrnaígræðslu sem var verið að byrja á? Það er dýr þjónusta. Þá má líka spyrja: Verður farin sú leið að skilgreina þá þjónustu sem hugsanlega væri hægt að gera á stofum úti í bæ og þeim hreinlega vísað út í bæ svo fábreytnin verði enn þá meiri í aðgerðum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi? Erum við, með þessu mikla aðhaldi í framlagi til stofnunarinnar, að hvetja til einkavæðingar og einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni? Erum við að vísa rekstrarþáttum og kostnaði frá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi yfir á Tryggingastofnun ríkisins og á sjúklingana? Ég held það.

Hugsanlega er því verið að fara bakdyramegin í að koma þjónustu yfir í einkarekstur og segja: Ja, við urðum bara að gera þetta því við gátum ekki haft þetta innan okkar veggja, við urðum að skera niður. Þá er það heildarmyndin: Hvort er ódýrara að gera ákveðnar aðgerðir inni á sjúkrahúsinu eða úti í bæ? Þegar upp er staðið er dýrara að gera þær úti í bæ.

Það verður að horfa á sérfræðikostnað Tryggingastofnunar ríkisins í þessu samhengi, það þýðir ekki bara að horfa á Landspítala -- háskólasjúkrahús. Það þýðir svo ekki að kvarta yfir því að sérfræðiþjónustan blási út og enginn ráði við það. Það er hægt að ráða við það. Þá verður líka að sjá til þess að þessi þjónusta geti verið inni á stofnunum sjúkrahúsanna. Eða loka deildum? Hvað segjum við þá hér? Þá heyrðist eitthvað á hinu háa Alþingi, ef það er starfandi, og úti í þjóðfélaginu, við skulum ekki gleyma því.

Sama má segja um Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ég veit að margir horfa til þess að byggja þar upp öflugra sjúkrahús en er í dag. Það hefur alla burði til þess. Það er orðið auðvelt að ráða þangað sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum. Þar er gott starfsfólk. Þjónustusvæðið er stórt. Það væri of langt mál að fara út í það hér, en það er á svo margan hátt þjóðhagslega hagkvæmt að byggja upp það sjúkrahús sem valkost við Landspítala -- háskólasjúkrahús, ég tala nú ekki um einn þátt, að létta á þrýstingnum og yfirálaginu á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, að gera þær aðgerðir og meðferðir úti um land sem hægt er að gera og draga úr þrýstingnum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[23:15]

Varðandi heilbrigðisstofnanir vítt og beitt um landið, stofnanir þar sem sameinaðar hafa verið heilsugæsla og sjúkrahús, er það sama að segja, reksturinn er þar alls staðar í járnum. Segja má að staðan í dag sé þvert á fyrirheit um að byggja upp heilsugæslu og frumþjónustu til að draga úr sjúkrahúskostnaði. Það að halda þessum stofnunum í spennitreyju eykur eingöngu kostnað á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar eða hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Við megum ekki gleyma því að í mörgum tilfellum er vandanum beint yfir á félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Í þessu sambandi vil ég nefna Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem er frumkvöðull á þessu sviði. Hún var rekin með rúmlega 90 millj. kr. halla á yfirstandandi ári og miðað við frv. eins og það lítur út í dag fer stofnunin inn í næsta ár með rúmlega 90 millj. kr. fjárskort miðað við óbreyttan rekstur. Þessi stofnun hefur staðið sig mjög vel. Í fréttum í síðustu viku var vísað til heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum og þess að þar er mjög sterkt og öflugt forvarnastarf og lyfjanotkun, sérstaklega sýklalyfjanotkun, minni en á sambærilegum stofnunum. Lyfjakostnaður þar er af þeim sökum minni og þjónustan mjög í anda heilsuverndar. Það kemur m.a. fram í því að á þessu svæði eru reykingar minni og eyrnabólgur í börnum einnig minni. Þar er heilbrigðisstofnun sem við getum horft til sem fyrirmyndar.

Sömuleiðis má líta til Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, sjúkrahúss heilbrigðisstofnunarinnar, sem tekið gæti við miklu fleiri verkefnum. Þar er verið að byggja upp fyrir endurhæfingu. Það yrði mikill sparnaður að geta verið með meiri endurhæfingu þar fremur en inni á dýrari sjúkrahúsunum. Það að setja þessa stofnun í þá spennitreyju að þurfa að draga úr starfseminni, geta ekki einu sinni haldið í horfinu, finnst mér hrein smán og þvert á það sem ætti að gera. Þar fyrir utan þarf þessi stofnun mun meira fé til að standa undir þeirri íbúaþróun sem þarna er að verða. Við verðum að segja íbúaþróun því að þó að á svæðið flytjist fólk til að búa þar tímabundið þá er þó verið að undirbúa um 700 manna þorp uppi á fjöllum. Sá fjöldi kallar á aukna þjónustu á öllum sviðum, ekki síst á heilbrigðissviðinu.

Við vitum hver staða dvalarheimila er. Þar hefur verið kallað eftir fleiri hjúkrunarplássum og staða þeirra er mjög erfið. Þó að fjölga eigi hjúkrunarplássum um rúmlega 130 á þessu ári er í dag þörf fyrir 500 pláss. Það þarf að setja í gang hraða uppbyggingu á hjúkrunarheimilum.

Ef við horfum til framtíðar og þess sem hægt er að gera þá er auðvitað ekki allt ómögulegt sem í gangi er ef það fær að þróast á eðlilegan hátt. Ég er að tala um heilsugæsluna og ef við ætlum að horfa til framtíðar, spara og fara vel með þá eigum við að styrkja heilsugæsluna. Við eigum að auka heimahjúkrun og heimaþjónustu og ef við ætlum að auka heimaþjónustu þá verðum við að styrkja stöðu sveitarfélaganna svo hægt sé að koma heimaþjónustunni við. Við þurfum að fjölga hjúkrunarheimilum og koma á sjúkrahóteli við þessi tvö stóru sjúkrahús. Við þurfum að finna sjúkrahúsum á landsbyggðinni verðug sérverkefni til að létta af því mikla álagi sem er á sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég held að ég fari ekki í neinn sparðatíning. Ég ætla ekki að nefna til fleiri verkefni. Ég vil hins vegar leggja áherslu á stöðu sveitarfélaganna. Það er stöðugt verið að færa til þeirra fleiri verkefni. Ég þekki bara ekki það sveitarfélag sem getur sagt: Við erum í góðum málum og höfum fé í þær framkvæmdir sem við þurfum nauðsynlega að fara í. Það er ekki svo og mörg þeirra steypa sér í skuldir og selja auðlindir sínar til að geta staðið undir þeim framkvæmdum sem krafa er gerð um í nútímaþjóðfélagi, t.d. byggingu leikskóla. Síðan eru gerðar kröfur, eins og ég nefndi áðan, um frekari heimaþjónustu og félagsþjónustu og allt kostar þetta aukið fjármagn.

Jöfnunarsjóðurinn hefur verið sá björgunarhringur sem sveitarfélögin hafa haft, sérstaklega þau minni. Hann hafði 700 millj. kr. framlag til þriggja ára sem átti samkvæmt fyrri áætlun að falla niður núna. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði bentum á að staða sveitarfélaganna væri það erfið að halda yrði þessum 700 millj. kr. inni. Nú hefur aðeins verið bætt úr og veittar 400 millj. kr. en ég tel að það hefði ekki veitt af þessum 700 millj. kr. sem fyrir voru til að taka verstu skellina af minnstu sveitarfélögunum. Ég tel að það þurfi að fara vel yfir nýjar úthlutunarreglur jöfnunarsjóðsins. Með þeim og fjárskortinum er verið að svelta minni sveitarfélög, svelta þau til sameiningar. En við eigum að nota aðrar aðferðir, herra forseti, til þess en að nota jöfnunarsjóðinn og fjárlögin.