Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 23:23:55 (2728)

2003-12-04 23:23:55# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[23:23]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð um fjárlagafrv. sem við ræðum hér við 3. umr. þar sem dregur að lokum umræðunnar um það.

Ég hef tekið þátt í umræðum um frv. og mörg fylgifrumvörp þess. Ég sit í sjútvn. og nefndin átti erfitt með að fá ýmis gögn, t.d. frá Hafrannsóknastofnun. Reyndin var sú að sjútvrn. skar niður tillögur frá Hafró um 340 millj. kr. Það gerir m.a. það að verkum að stofnunin kemst ekki í nauðsynlegar rannsóknir eins og loðnurannsóknir í norðurhöfum, sem eru mjög mikilvægar og kannski mikilvægari nú en áður vegna ástandsins í hafinu, þ.e. hlýnandi sjávar. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Einnig kom það mönnum í sjútvn. á óvart þegar birt var í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ætlaði að breyta starfsemi sinni, jafnvel segja upp fólki og annað slíkt. En vegna þess að það mál er í umræðu í sjútvn. ætla ég ekki að eyða tíma í það. Hins vegar er ljóst að við það verður ekki unað að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins dragi úr starfsemi sinni á landsbyggðinni, segi fólki jafnvel upp. Það að breyta starfseminni og taka upp meira rannsóknarstarf er auðvitað hið besta mál en fjárskortur háir hins vegar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og mig grunar að óstjórn undanfarinna ára hafi þar eitthvað haft að segja.

Ég hafði hugsað mér, virðulegi forseti, að fara í gegnum nokkur atriði sem ég hef ekki rætt um áður. Ég mun þó nefna önnur mál í lokin sem snúast um skuldaskil hæstv. ríkisstjórnar við fólkið í landinu í framhaldi af alþingiskosningum, loforðaflaumi og tilboðum um hitt og þetta í aðdraganda kosninga. Stjórnarflokkarnir stóðu illa og höfðu slæma samvisku og gengu fyrir þjóðina og eyddu peningum til vinstri og hægri og gáfu loforð í allar áttir. Megnið af þeim er verið að svíkja í þessu frv. Aumt er það hlutverk hæstv. ríkisstjórnar og þeirra sem styðja núverandi ríkisstjórn að samþykkja þetta. Ég kem kannski að því síðar.

Ég hafði hugsað mér að fjalla um heilbrigðismálin við þessa umræðu. Það hefur komið fram hjá fjölmörgum sem ég hef hlustað á í umræðunni að Landspítala -- háskólasjúkrahús vanti allt að 1,5 milljarða kr. Ég sé að stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að leggja þá peninga til, m.a. vegna þess að það mundi rugla jólapappírsumbúðirnar utan um fjárlagafrv. eins og ég sagði fyrr í dag.

Það er mjög alvarlegt mál, virðulegi forseti, ef þessi fjárvöntun leiðir til þess að á næstu missirum þurfum við að grípa til uppsagna eða jafnvel lokana á deildum. Það yrði auðvitað mjög alvarlegt mál. Þrátt fyrir alla umræðuna um Landspítala -- háskólasjúkrahús eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út, þar sem lagt var mat á árangur af sameiningu sjúkrahúsanna, ætla ég að verja örlitlum tíma í að tala um og vitna í mjög góða grein sem Anna Lilja Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjárreiðna og upplýsinga Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, ritar í Morgunblaðið í dag. Þar ræðir hún um fjóra þætti. Hún setur fram nokkur atriði sem ég tel að eigi erindi í þinggögn og umræðu hér við fjárlagagerð.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa nokkra valda kafla úr þessari grein. Þar er fyrst talað um að afköst Landspítala -- háskólasjúkrahúss séu óbreytt en færri starfsmenn:

,,Ríkisendurskoðun kemst að því að afköst spítalans hafi ekki aukist frá 1999 til 2002 en starfsmönnum hafi fækkað um 250. Þannig hefur framleiðni á hvern starfsmann aukist. Hafa verður í huga þegar afköst þessara ára eru borin saman að sameiningin var enn í fullum gangi á árinu 2002. Þann tíma sem sérgreinar eru að flytjast á milli húsa og sameinast þá dregur úr afköstum á meðan. Starfsfólk er þá að vinna að flutningi og skipulagi á sameinaðri sérgrein. Sameiningin er enn í gangi en þó eru afköst að aukast og munu aukast enn meira á næsta ári. Sem dæmi þá hefur skurðaðgerðum fjölgað um tæp 3% á þessu ári. Bent er á í skýrslu Ríkisendurskoðunar að biðlistar hafi ekki almennt styst á þessu tímabili sem skoðað var. Rétt er að benda á að samkvæmt nýjustu stjórnunarupplýsingum spítalans hafa biðlistar styst á þessu ári í nær öllum sérgreinum. Því er árangur að nást í þeim málum.``

Síðan ræðir þessi ágæti starfsmaður Landspítala -- háskólasjúkrahúss um að gæði þjónustu og faglegur ávinningur sameiningar sé greinilegur:

,,Í samanburði Ríkisendurskoðunar á gæðum þjónustu á LSH og á breskum háskólasjúkrahúsum þá kemur í ljós að sjúklingum á LSH hefur reitt betur af sem er talið til marks um góða þjónustu á LSH.``

Auðvitað á ekki að þurfa að skrifa um það blaðagrein. Það vita auðvitað allir sem fylgst hafa með rekstri Landspítala -- háskólasjúkrahúss, hvort sem er af eigin raun eða í gegnum fjölmiðla, að gæði þjónustu eru mikil enda hefur það komið fram í rannsóknum hjá Gallup.

Það sem mér þótti merkilegast í þessari grein er að á föstu verðlagi hefur rekstur Landspítala -- háskólasjúkrahúss staðið í stað frá sameiningu.

[23:30]

Það segir m.a. í umræddri grein, með leyfi forseta:

,,Þessi fullyrðing virðist vera þvert á það sem fram hefur komið í fréttum um hækkun rekstrarkostnaðar frá 1999 til 2002. En svo er alls ekki. Eins og fram hefur komið hefur rekstrarkostnaður hækkað um 33% frá sameiningu þegar tölurnar eru ekki leiðréttar með tilliti til verðlags og ef ekki er tekið tillit til þess að greiðsla fyrir S-merkt lyf (lyf sem gefin eru eingöngu á sjúkrahúsum eða í tengslum við sjúkrahús) var flutt frá Tryggingastofnun ríkisins til spítalans 2001. S-merkt lyf kostuðu Landspítala -- háskólasjúkrahús 1.370 millj. kr. á síðasta ári en þessi kostnaður var ekki á spítalanum á árinu 1999. Þegar launakostnaður er verðleiðréttur með launavísitölu opinberra starfsmanna frá 1999 til 2002 (30%) og rekstrarkostnaður verðleiðréttur með neysluverðsvísitölu (16%) og kostnaður við S-merkt lyf er tekinn út þá hefur kostnaður við rekstur spítalans ekki hækkað á þessum þremur árum. Sem er mjög góður árangur miðað við að Íslendingum fjölgar um 1,8% á ári og öldruðum fjölgar um 2,4% á ári. Að auki gera tækniframfarir okkur mögulegt að veita sífellt meiri og betri þjónustu sem skilar sér m.a. í hækkandi meðalaldri þjóðarinnar. Allt kostar þetta fjármuni. Að auki staðfestir Ríkisendurskoðun að engir fjármunir voru veittir til spítalans vegna sameiningarinnar.

Hins vegar má gagnrýna þá miklu hækkun sem orðið hefur á launum opinberra starfsmanna í landinu á síðustu árum og hafa laun á spítalanum hækkað í samræmi við það. Samið hefur verið um þessar hækkanir í miðlægum kjarasamningum og í stofnanasamningum en ekki eru allir með stofnanasamninga, svo sem læknar og hafa því fengið allar sínar hækkanir með miðlægum samningum. Starfsmenn Landspítala -- háskólasjúkrahúss eru opinberir starfsmenn og þarf að nota rétt viðmið við verðleiðréttingar launakostnaðar á spítalanum frá ári til árs í stað þess að nota almenna launavísitölu.``

Þessi atriði, virðulegi forseti, er rétt að benda sérstaklega á. Anna Lilja Gunnarsdóttir hefur í grein sinni bent á nokkur atriði í skýrslu Ríkisendurskoðunar ,,sem eru mjög jákvæð fyrir spítalann og er rétt að draga þau betur fram í dagsljósið en fréttaflutningur síðustu daga hefur gert.`` Hér lýk ég tilvitnun í þessa ágætu grein.

Ég hef sem betur fer sem þingmaður átt þess nokkrum sinnum kost að sitja fundi með yfirstjórn Landspítala -- háskólasjúkrahúss, m.a. umræddum starfsmanni Önnu Lilju Gunnarsdóttur og framkvæmdastjórn spítalans og leyfi mér ekki eitt einasta augnablik að draga í efa það sem hér er sett fram. Ég held, virðulegur forseti, að það sé mjög mikilvægt að þetta komi í þá umræðu sem hér hefur verið, en ég ætla ekki að lengja hana með því að fjalla um og leggja mat á hvað sagt hefur verið. Mér finnst að margir hefðu mátt segja minna um Landspítala -- háskólasjúkrahús en hér hefur komið fram. Það er alveg ljóst að þar er verið að skila geysilega miklu starfi. Hitt stendur þó alltaf eftir hvað viðkomandi stjórnvöld vilja eyða miklu í sjúkrastofnanir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan --- ég held að árangur af sameiningu spítalanna eigi eftir að koma miklu betur í ljós á komandi árum en til þess þarf auðvitað að ganga í ákveðnar aðgerðir. Það gengur t.d. ekki, svo tekið sé eitt dæmi, að lungnadeild sé rekin á einum spítalanum en á öðrum spítalanum sé rekin hjartadeild. Þegar kraftaverkið átti sér stað og dreng var bjargað frá drukknun ekki alls fyrir löngu kom það í fréttum að fyrst var farið með viðkomandi sjúkling á Borgarspítalann gamla, en þar var tekin ákvörðun um að flytja hann í betri tæki sem voru við Hringbraut. Ég vil aðeins minnast rétt á þetta og læt umræðu minni lokið um heilbrigðismál, en hefði viljað gera það miklu betur en mun gera það á seinni stigum.

Þá ætla ég að eyða fáum mínútum í skattahækkanir núv. hæstv. ríkisstjórnar sem boðaðar eru í þessu frv. á einn eða annan hátt, annaðhvort með því að taka greiðslur til baka eins og vaxtabætur og minnka þær eða hreinlega að hækka skatta. Ég hef gagnrýnt hæstv. ríkisstjórn sérstaklega fyrir þetta. Mér finnst það mjög ómerkilegt að ganga fram og lofa öllu hirst og her og ýmsu í atkvæðakaupum rétt fyrir kosningar og ganga svo fram núna í þveröfuga átt og misbjóða þar með fólki með því að gera annað en það sem lofað var. Skal ég hér nefna nokkur atriði.

Það hefur áður komið fram í þessari umræðu, virðulegur forseti, m.a. frá fulltrúa okkar samfylkingarmanna í fjárln. að skattahækkanir og ýmsar álögur aukast um 4 milljarða kr. í þessu fjárlagafrv. Skulu hér nefnd nokkur dæmi, eins og lækkun á vaxtabótum sem við sjáum ekki alveg hvernig á að útfæra. Eins og kom fram í morgun og í dag hefur ríkisstjórnin verið rekin á flótta frá því máli og í raun og veru verið rassskellt opinberlega fyrir að ætla að fara þá leið sem boðuð var, en áfram á að halda samt sem áður til að ná í þessar 600 millj. á einn eða annan hátt. Ég hika ekki við að halda því fram að allar þær breytingar sem er verið að gera á vaxtabótum sem munu virka á þessu ári sem senn er á enda eru auðvitað stjórnarskrárbrot þar sem verið er að skerða vaxtabætur afturvirkt.

Ég tel hins vegar og er sammála því að hæstv. ríkisstjórn getur breytt þessu kerfi, eins og á að gera, og það tæki gildi 1. janúar 2005. Það er allt annar handleggur. En að ætla að gera þetta afturvirkt kallar á að ríkisstjórnin verði rekin, það verður höfðað mál gegn ríkisstjórninni sem ábyggilega mun enda í Hæstarétti og þá spái ég því að ríkisstjórnin verði þar löðrunguð enn einu sinni fyrir að ætla að ganga gegn stjórnarskránni og brjóta hana.

Hitt atriðið hef ég töluvert rætt um hér, þ.e. þau 0,2% sem á að taka af tryggingagjaldinu sem framlag í séreignarlífeyrissjóð, þetta eru 600 millj. kr. sem þarna á að sækja. Fræg er skattahækkunarstefna ríkisstjórnarinnar í bensínskatti og þungaskatti, 600 millj. kr. í bensínskatti, 400 millj. kr. í þungaskatti, ofan á þetta leggst virðisaukaskattur svo að þetta eru um 1.200 millj. kr. og skattheimta núv. ríkisstjórnar er komin í 32 milljarða kr. af umferð. Hæstv. forsrh. hefur slegið algjört heimsmet í sinni tíð við að auka álögur á umferð og þá sem eiga bíla í landinu. Það hefur verið gert um 100% eins og hér var rætt um.

Ég vil ræða um málaflokk sem snýr að hæstv. félmrh. og þá fáránlegu hugmynd, vil ég segja, að leyfa sér að ætla að spara 70 millj. til að koma saman fjárlagafrv. síns ráðuneytis, að spara 70 millj. með því að fara þá heimskulegu leið að ætla að ráðast á atvinnulaust fólk þannig að það fái ekki bætur fyrstu þrjá dagana. Þetta er alveg með ólíkindum. En ég held, virðulegi forseti, að það sé verið að reka hæstv. félmrh. til baka með þetta mál, eins og með ríkisstjórnina og vaxtabæturnar sem ég gerði að umtalsefni áðan. Ég spái því, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að félmrh. hafi sagt að það væri rangt sem fréttastofa útvarpsins talaði um í hádeginu að þetta ætti að draga til baka, vil ég nú samt sem áður leyfa mér, hæstv. forseti, hér rétt fyrir miðnætti, að spá því að það muni takast að reka hæstv. félmrh. til baka með þessa heimskulegu hugmynd og þessa 70 millj. kr. árás á atvinnulaust fólk. En sá böggull fylgir skammrifi að hæstv. félmrh. verður látinn skera eitthvað annað niður um 70 millj. kr. í staðinn, eða búa til eitthvert annað fiff til þess að láta sitt fjárlagafrv. koma út á núlli gagnvart sínu ráðuneyti. Ég spái því, virðulegur forseti, að það muni gerast á næstu dögum.

Ég ætla rétt í lokin að fjalla um og nefna hér nokkur atriði. Svo virðist sem að hjá þessari þreyttu ríkisstjórn, sem er ákaflega þreytt, sé hinn mikli kærleikur milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem hefur verið undanfarin átta ár töluvert farinn að dvína og minnka. Það er kominn pirringur í mannskapinn, samanber það sem hefur verið að gerast hér undanfarna daga. Ber þar fyrst að nefna öryrkjasamninginn, þau svik sem þar eru, þ.e. að ætla ekki að ganga málið til enda og standa við það fullkomlega, jafnvel þó það kosti 1.528 millj. kr. eins og hefur verið reiknað út. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur komið með gögn sem tekin voru með töngum út úr opinberum stofnunum og sýnt fram á það að mánuði fyrir kosningar lágu þessar tölur allar fyrir, að það þyrfti 1.528 millj. kr. í þetta en ekki 1 milljarð. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á og verða vitni að því hvernig þetta mál er teygt og togað milli stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lamið, ef svo má að orði komast, framsóknarmenn í hausinn og neitað að setja meira en 1 milljarð í þetta verkefni, eins og talað var um í upphafi og kom fram í fréttatilkynningu. Þeir sem eru áheyrendur utan frá og eiga þess ekki kost að sitja inni og hlusta á samtöl hæstv. ráðherra eða stjórnarsinna verða að leggja mat á það sem komið hefur fram í fréttaþáttum undanfarna daga um það hver er að segja satt og hver er að segja ósatt, hvað fór þarna á milli. Það er greinilegt að þarna er ekki samhljómur milli stjórnarflokkanna eins og hér hefur margoft komið fram og ætla ég ekki að eyða tíma í að ræða það, heldur aðeins segja það að ég fyrirlít svona vinnubrögð og mér finnst þau íslenskri pólitík og íslenskum stjórnmálamönnum til stórskammar vegna þess að þetta er eitt af þeim atriðum sem slegin voru fram rétt fyrir kosningar þegar Framsfl. stóð illa og þurfti að gera eitthvað til að kaupa sér hylli meðal þjóðarinnar, kaupa sér einhver prósent til þess að freista þess að tryggja fleiri þingmenn til að þessi stjórnarmeirihluti héldi áfram.

Það má svo ræða um ýmis önnur atriði, virðulegi forseti, eins og svik við jarðgangagerð fyrir norðan, Héðinsfjarðargöng. Þar hafði verkið verið boðið út og átti að hefjast 1. júlí sl. Þegar sumir menn voru hér á landi og aðrir voru á Grænlandi, kemur ríkisstjórnin saman, smellir saman fingrum, málið slegið af, af ástæðum sem eru hlægilegar. Ímynduð þensla í landinu sem fólk á landsbyggðinni þekkir ekki nema úr fjölmiðlum. Enda er komið á daginn að það hefði verið gott lag fyrir þá framkvæmd á þeim tíma.

Vegagerð skorin niður um 850 millj. kr. Ég verð að nota tækifærið, virðulegur forseti, og hrósa hæstv. samgrh. fyrir að koma inn í umræðuna eins og hann gerði hér í dag og þylja upp allt sem á að skera niður eða fresta, margt af því vegna þess að verkin eru ekki tilbúin. Það er hægt að haga hlutunum þannig að hönnun og undirbúningur taki lengri tíma svo að það dragist að setja verkin í gang. Ég er ekki að segja að svo sé, en ég bendi á að það er hægt. Þær kanínur sem töfraðar voru upp úr hatti til þess að spýta í framkvæmdir við vegagerð rétt fyrir kosningar eru enn eitt atriðið máli mínu til stuðnings um þau svik og þær ómerkilegu kosningabrellur sem iðkaðar voru rétt fyrir kosningar í atkvæðakaupum.

Fleiri atriði mætti nefna hér, virðulegur forseti, eins og samning um hraðari uppbyggingu öldrunarþjónustu á Akureyri, sem mig minnir að ætti að vera lokið næsta vor eða næsta sumar og ekkert er farið að gera í. Fræg er línuívilnunin, það verður drama næstu daga innan stjórnarflokkanna við að koma að því máli.

Ég segi því aðeins í lokin, virðulegur forseti. Það er þreytt stjórn sem hér situr. Það er þreytt stjórn sem kemur þannig fram við kjósendur í landinu og landsmenn að hún svíkur svo mörg loforð sem gefin voru fyrir nokkrum mánuðum í aðdraganda kosninga. Þessi fjárlög er verið að afgreiða núna með 6,5 milljarða kr. afgangi. Ég sagði það í dag að mér finnist sem verið sé að leggja alla áherslu á að halda öllu niðri til þess að sýna þennan mikla afgang. Það er fjárvöntun hjá mjög mörgum stofnunum hins opinbera, háskólum, framhaldsskólum, ég ræddi um sjúkrahúsið áðan og fleiri mætti telja upp sem mundi gjörsamlega eyða þessum fjárlagaafgangi.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ég hygg að við eigum eftir að hittast hér í haust þegar hæstv. fjmrh. kemur með sitt fjáraukalagafrv. Þá eigum við eftir að skoða ýmsar tölur, 3--5 milljarða, sem þarf að bæta við hjá ýmsum stofnunum vegna þess að það er vitlaust gefið í þessu fjárlagafrv. eins og það hefur verið lagt fram.