2003-12-05 00:02:11# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[24:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Komið er að lokum langrar og ítarlegrar umræðu um fjárlagafrv. næsta árs sem venju samkvæmt er fyrsta mál þingsins. Að þessu sinni er fjárlagafrv. komið til lokaafgreiðslu óvenju snemma. Minnist ég þess ekki að það hafi áður komið eins snemma til 3. umr. og nú. Vil ég þakka öllum sem hlut eiga að máli fyrir aðild sína að þeirri niðurstöðu.

Mikilvægara er þó að ég tel að það frv. sem nú er til endanlegrar afgreiðslu uppfylli þau skilyrði og þau markmið sem sett voru þegar hafinn var undirbúningur að þessu fjárlagafrv. á liðnu vori og sem birtust við framlagningu þess 1. október sl. Að þessu sinni er óvenjulega brýnt að fjárlagafrv. endurspegli efnahagsleg markmið sem er mikilvægt að ná ekki eingöngu á árinu 2004, heldur á hverju einasta ári út kjörtímabilið. Allt þetta hefur verið rakið hér í ítarlegu máli á fyrri stigum. En ástæðan fyrir því er auðvitað sú að fram undan er uppsveifla og uppgangstímar í efnahagslífinu og mikilvægt að halda vel og þétt utan um ríkisfjármálin. Það hefur tekist hvað varðar þetta tiltekna frv. Og niðurstaðan er sú að afgangurinn sem birtist í frv. við 1. umr. upp á ríflega 6,4 milljarða kr., verður á bilinu 6,7--6,8 ef að líkum lætur. Auðvitað með fyrirvara um þær atkvæðagreiðslur sem fram munu fara á morgun. Þetta leyfi ég mér að kalla góða frammistöðu hjá ríkisstjórninni, hjá fjárln. og þingheimi öllum. Menn hafa ekki verið að falla hér í miklar útgjaldafreistingar miðað við það sem oft hefur áður tíðkast. Allt er þetta nokkuð gott.

Auðvitað er það svo þannig, eins og fram kom í umræðum um störf þingsins í dag, að einhverjir lausir endar kunna að vera eins og er reyndar alltaf hvað varðar bæði tekju- og gjaldahlið fjárlagafrv. þegar það kemur til endanlegrar afgreiðslu. Og það liggur hálfpartinn í hlutarins eðli, að ég tel, að eftir að farið var að afgreiða fjárlagafrv. í fyrstu viku desembermánaðar, þá eru óafgreidd mál í þinginu sem geta varðað fjárlagafrv. sem ríkisstjórnin í krafti síns þingmeirihluta hyggst ljúka, hvort heldur það er í formi laga eða reglugerða.

Ég vil fagna því alveg sérstaklega hversu ágætlega hefur til tekist núna, bæði hvað varðar tímasetningar og innihald þessa frv. Hins vegar er það kannski eðli máls varðandi afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins að þingmenn ýmsir hafa ríka tilhneigingu til þess að fjalla eingöngu um tilteknar stærðir, einstaka verkefni, einstaka áhugamál sín en láta efnahagslegu meginmarkmiðin lönd og leið. Og auðvitað er það þannig, eins og ég hef nú áður bent á í þessum ræðustóli, að það er auðvelt að samþykkja almenn markmið en getur verið erfitt að koma sér saman um það hvernig samsetning einstakra atriða innan þeirra markmiða sem sett hafa verið eigi að líta út. En nóg um það. Það er ekki kjarni málsins á þessu stigi, heldur það að hér hefur náðst sú góða niðurstaða sem nú liggur fyrir.

Ég vil sem sagt endurtaka þakkir mínar til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóginn í þessu efni, sérstaklega fjárlaganefndarmönnunum, bæði meiri hluta og minni hluta og einkanlega þó formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir mjög gott samstarf sem staðið hefur allt frá því á vormánuðum.