2003-12-05 00:20:32# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[24:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það ekki fyrir neðan virðingu mína að tala um skerðingu á kjörum atvinnulauss fólks. Mér finnst það stórmál. Mér finnst það stórmál að skerða tekjur þessa tekjulægsta hóps í samfélaginu. Mér finnst það líka eðlileg pólitísk krafa að ræða um pólitíska ábyrgð í því efni.

Ég gekk eftir svarinu hjá fulltrúa félmrn. á sínum tíma sem staðhæfði í mín eyru að þetta væri krafa fjmrn. um niðurskurð á þessu sviði. Nú hef ég beint þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að fallið verði frá þessum áformum, frá þessum tillögum.

Við erum með fjárlög sem hann segir að muni skila 6.770 millj. kr. í tekjuafgang. Hér er sparnaður upp á 70 millj. kr. á kostnað þess fólks sem minnst ber úr býtum, sem á að mörgu leyti erfiðast félagslega og fjárhagslega í samfélagi okkar. Er hæstv. fjmrh. reiðubúinn að taka höndum saman við hæstv. félmrh. --- við skulum gefa okkur að báðir vilji endurskoða þessar ákvarðanir --- um að falla frá þessum áformum?

Það má deila um það hvað er gerræðislegt og hvenær eigi að nota það hugtak. Að sjálfsögðu yrði þetta ákvörðun meiri hluta á þingi. En gagnvart þessu fólki finnst mér ekki annað duga en sæmilega mergjuð hugtök. Mér finnst þetta svívirðileg aðför að atvinnulausu fólki á Íslandi.