2003-12-05 00:22:25# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[24:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur svarað þessari spurningu hér í þessum umræðum bæði við 2. og 3. umr. að ég hygg.

Hitt er annað mál, varðandi hluti af þessu tagi, hver ber ábyrgð á svona tillögum. Auðvitað ber ríkisstjórnin ,,sólidaríska`` ábyrgð á því sem hún leggur fram ef svo mætti segja. Auðvitað ber hún sameiginlega pólitíska ábyrgð á sínum tillögum. Það leikur vonandi enginn vafi á því.

Varðandi það að hér sé dregin upp glansmynd þá hef ég ekki talið mig gera það. Ég hef farið yfir þá hluti sem hér liggja fyrir. Að segja að ég sé að guma af frv. er leiðindaorðanotkun. Hér stendur fjmrh. og ber sér á brjóst, segja menn stundum. Hann gumar af þessu og montar sig af hinu. Þetta er ekki beint málefnaleg umræða um þessi mál þegar menn tala með þessum hætti. (ÖJ: Er ráðherrann sjálfur mjög málefnalegur?)

Staðreyndirnar liggja fyrir varðandi niðurstöður þessa frv. Hv. þm. hefur vafalaust aðrar skoðanir en ég á því hvernig það er í pottinn búið. Ég saka hann ekki um ómálefnalegan málflutning þó að mér finnist hann stundum taka djúpt í árinni og grípa til stóryrða að ástæðulausu. Ég ætlast til að hann sýni mér með sama hætti virðingu í umræðum af þessu tagi.