Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:32:38 (2741)

2003-12-05 10:32:38# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hvalfjarðargöngin urðu til fyrir baráttu framsýnna manna og ötullar framgöngu sveitarfélaga og fyrirtækja norðan Hvalfjarðar. Segja má að ríkisvaldið hafi leyft þessu að gerast en gekk eins stutt og mögulegt var í stuðningi sínum við málið. Meðal annars þess vegna varð framkvæmdin dýrari en hún hefði þurft að vera og þess vegna er líka gjaldið hærra í göngin en það hefði getað orðið. Þetta er liðin tíð og öll hefur þessi framkvæmd sannað sig á þeim tíma sem liðinn er. Oft hafa verið umræður uppi um veggjaldið í göngin. Mörgum þykir það hátt og það gerir ýmsum ókleift að stunda atvinnu handan fjarðarins. Sá sem vinnur handan fjarðarins fimm daga í viku greiðir fyrir það 180 þús. kr. á ári með fyllsta afslætti. Fólk munar um minna og um þessi mál varð veruleg umræða í fyrravetur, fyrir kosningarnar.

Samgrh. sem hafði á undanförnum árum ekki ljáð máls á því að gera neitt í þessu máli ókyrrðist að lokum og ákvað að setja nefnd í málið í seinni hluta febrúar. Mér finnst skýrslan sem starfshópurinn skilaði af sér að mörgu leyti góð og gagnlegt plagg. Þar kemur fram að stjórnendur Spalar telja að þeir geti ekki lækkað gjaldið í göngin að óbreyttum aðstæðum. Um það segir starfshópurinn að allar áætlanir Spalar séu varfærnar, hægt sé að rökstyðja miðað við aðrar áætlanir Vegagerðarinnar um umferð á höfuðborgarsvæðinu, að aukning umferðar í gegnum göngin gæti verið 3,5% í stað 1,5% sem Spölur miðar við.

Ef við notum þessa einu breytu og lækkum meðalgjald í göngin úr 675 kr. í 600 verður samt sem áður búið að greiða allar skuldir Spalar árið 2019 eða ári síðar en áætlað hefur verið. Bara þessi leið gæfi rúmlega 11% lækkun í göngin. En fleira væri hægt að skoða.

Þá koma menn auðvitað fyrst að skattheimtu ríkisins. Þarna í göngunum er ríkið nefnilega að hala hinn 110--120 millj. á ári og ég spyr: Er það eðlilegt þegar fyrir liggur að vegfarendur greiða þessi mannvirki að fullu á 20 árum að ríkið sé líka að skattleggja umferðina þarna í gegn, leggja skatt á mannvirki sem ríkið mun eignast að 20 árum liðnum frá upphafi þess að göngin voru tekin í notkun? Ég óska rökstuðnings hæstv. ráðherra alveg sérstaklega á þessu atriði. Þessa skattheimtu á auðvitað að fella niður.

Kostnaður við hryðjuverka- og hamfaratryggingu hefur hækkað gífurlega eftir árásina 11. september. Ríkið gæti tekið á sig þessa áhættu og sparað Speli þar með 65 millj. kr. Það er ekki nein sjáanleg áhætta fólgin í þessu og ríkið tekur hvort eð er á sig alla áhættu af öðrum vegamannvirkjum í landinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að beita sér fyrir því að þetta verði gert?

Ég vil að lokum vitna í lokaorð skýrslunnar sem starfshópurinn gerði en þar segir:

,,Að lokum er rétt að geta þess að fulltrúar samgönguráðherra fundu nokkuð fyrir því í vinnu sinni að heildstæða stefnu vantar af hálfu hins opinbera í málefnum einkaframkvæmdar, einkarekstrar og gjaldtöku af samgöngumannvirkjum. Til dæmis liggur ekki fyrir stefna um hvort og hversu lengi á að halda uppi gjaldtöku á mannvirkjum sem þessum eftir að mannvirkið er yfirfært til ríkisins. Skýrt kemur fram í markmiðum fjögurra ára samgönguáætlunar 2003--2006 að unnið skuli að stefnumótun af þessu tagi á tímabilinu. Upplýst hefur verið að samgönguráðuneytið hefur þegar hafið þessa vinnu. Fulltrúar samgönguráðherra fagnar þessu og telja vinnuna mjög svo tímabæra.``

Þetta er nefnilega algerlega óljóst, þ.e. hvort fella eigi niður gjald í göngin eða ekki þegar ríkið hefur eignast þau að fullu. Afstaðan til þess hlýtur að mótast af því hvort þessi kostur, þ.e. veggjald, verði nýttur í framtíðinni eða ekki. Verði hann hluti af fjáröflun til samgöngubóta verður slíkt gjald að vera innan hóflegra marka og má ekki verða til þess að mismuna landsmönnum eftir því hvort þannig vill til að þeir búi nærri slíkum mannvirkjum eða ekki. Nú líður að því að innan eins og hálfs árs eða svo komi ný göng til nota á Austurlandi. Löngu fyrir þann tíma þarf að liggja fyrir stefnumörkun hvað þessi mál varðar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða leiðarstjörnur hefur hann gefið eða ætlar að gefa þeim starfshópi sem fyrir liggur að hann hefur sett í að skoða framtíðarstefnuna og hvaða gjaldtöku af samgöngumannvirkjum er hann með í huga?