Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:52:30 (2747)

2003-12-05 10:52:30# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), VF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Göngin undir Hvalfjörð eru að sögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands ein hagkvæmasta stórframkvæmd í samgöngumálum á Íslandi. Hagkvæmnin felst m.a. í minna eignatjóni, líkamstjóni og mengun svo ekki sé talað um tímasparnaðinn. Ríkið tekur 14% virðisaukaskatt af veggjöldum í göngunum og hefur þar af leiðandi af því nokkrar tekjur.

Ég spyr, herra forseti: Er eðlilegt, út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að veggjald sé tekið af Hvalfjarðargöngunum á meðan önnur eru án gjalds og greidd úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar?

Málshefjandi, hv. þm. Jóhann Ársælsson, hefur reifað málið og bent á leiðir til að lækka veggjaldið eða hreinlega að fella það niður. Uppistaða notenda eru landsbyggðarfólk og fyrirtæki á landsbyggðinni og því má líta svo á að um sé að ræða aukaálögur á landsbyggðarfólk.

Hæstv. forseti. Hér er um hápólitískt mál að ræða. Göngin áttu upphaflega ekki að vera fastur tekjuliður hjá samgrn. Er ekki rétt að ríkisvaldið athugi möguleikann á að taka rekstur Hvalfjarðarganganna yfir og lækka eða fella veggjaldið alveg niður? Hæstv. ráðherra segir að stefnumótun um veggjöld sé í bígerð. Ég spyr: Er í bígerð að leggja veggjöld á fleiri samgöngumannvirki í framtíðinni, t.d. Héðinsfjarðargöng eða jafnvel á sjálfa Sundabrautina?