Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:54:17 (2748)

2003-12-05 10:54:17# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:54]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt að ræða Hvalfjarðargöngin. Það voru ýmsar efasemdir uppi á Alþingi á sínum tíma þegar við unnum að því að ráðast í þau, um hvort þau væru skynsamleg framkvæmd. Ýmsir töldu að þau mundu leka af því að þau færu undir sjóinn og töldu að slík áhætta fylgdi göngum af því tagi að bankar fengjust ekki til að lána fé til framkvæmdanna.

Ég man að á þeim tíma impraði ég einu sinni á því hvort ekki væri rétt að fara frekar innan við Hvalfjörðinn og brúa Hvalfjörðinn þar. Mig minnir að þingmenn Vesturlands, eins og við þingmenn Norðurlands, höfum á þeim tíma verið sammála um að rétt væri að fara fremur í einkaframkvæmd og hafa veggjald, gangagjald. Um það voru allir sammála, sérstaklega þingmenn Akraness.

Það er á hinn bóginn alltaf billegt að koma eftir á og segja: Við skulum létta af þessum og þessum göngunum. Við stöndum frammi fyrir því, dreifbýlismenn, að við viljum ráðast í ýmsar framkvæmdir og greiða fyrir þeim með því að hafa veggjöld. Ég get nefnt sem dæmi jarðgöng undir Vaðlaheiði. Ég get nefnt sem dæmi veg um Stórasand. Ég get nefnt sem dæmi þá möguleika sem eru tengdir því að fara í Sundabraut. Þar hafa líka ýmsir talað um veggjald sem aftur mundi hafa áhrif á samninga við Spöl vegna ákvæða í þeim samningi.

Ég vil minna á að ég sagði, þegar Hvalfjarðargöng voru vígð á sínum tíma, að minn spádómur væri að samningurinn við Spöl yrði endurnýjaður af því að nauðsynlegt yrði eftir 14 ár að fara í önnur göng við hliðina á þessum vegna hinnar miklu umferðar sem er á milli Vesturlands og Reykjavíkur. Ég hygg að ég virðist spámannlega vaxinn í þessu þó að ég sé það yfirleitt ekki.

Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir að hafa haldið vel á þessum málum og ber fyllsta traust til þess að hann muni gera það áfram.