Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 11:03:17 (2752)

2003-12-05 11:03:17# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög gagnleg og mikilvægur undanfari þess að við þurfum að ræða í þinginu almennt um gjaldtöku vegna fjárfestinga í umferðarmannvirkjum.

Menn tala eins og það sé sjálfsagt mál að ganga á fund forustumanna fyrirtækis og bjóða þeim styrki. Hvernig gerum við það? Jú, við gerum það með því að taka fé úr ríkissjóði. Ef við ætlum að greiða upp lán fyrir fyrirtækið Spöl sem hefur fjárfest í þessu ágæta verkefni, ef við ætlum að lækka virðisaukaskatt eða greiða niður lánin fyrir fyrirtækið þá verðum við að taka það úr ríkissjóði. Hvaðan? Úr Vegasjóði. Eru menn tilbúnir að velja þau verkefni sem við þurfum að skera niður í vegagerð til að lækka þetta gjald?

Ég legg mikla áherslu á viðræður við Spöl áfram. Viðræður um hvað? Viðræður um að fyrirtækið leggi sig fram við að lækka gjaldið. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ganga í þær viðræður, m.a. með því að skoða hvort hægt sé með einhverjum leiðum að lækka tryggingarkostnaðinn. Ég tel að það sé eitt af þessum verkefnum.

Lækkun virðisaukaskattsins er fram undan á kjörtímabilinu á næstunni. Stjórnarflokkarnir hafa gert ráð fyrir að lækka virðisaukaskattinn, m.a. af gjaldinu í Hvalfjarðargöngunum. Í dag er 14% virðisaukaskattur af gjaldinu og ég tel að við eigum að lækka það og að því er stefnt.

Ég tel að ríkið eigi ekki að yfirtaka Hvalfjarðargöngin eins og fulltrúar Frjálslynda flokksins nefndu og raunar fleiri sem ýjuðu að því. Ég tel miklu fremur að við eigum að ganga til samninga við þetta ágæta fyrirtæki, m.a. um þann hugsanlega kost að það haldi áfram ámóta starfsemi og taki að sér önnur verkefni sem hér blasa við og nefnd hafa verið, t.d. Sundabraut.

Ég tel að við eigum að eiga gott samstarf við fyrirtækið, leita allra leiða, eins og ég hef verið að gera, til þess að lækka gjaldið, horfa til framtíðar og nýta þennan kost, þ.e. áframhaldandi uppbyggingu í samgöngukerfinu með gjaldtöku.