Tryggingagjald

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 11:06:00 (2753)

2003-12-05 11:06:00# 130. lþ. 43.3 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er tekið til 3. umr. frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald sem töluvert hefur verið fjallað um í þingsölum og við rætt í efh.- og viðskn. sem fékk málið til umsagnar.

Frv. felur í sér að heimild launagreiðanda til lækkunar á tryggingagjaldi, sem nýta á á móti iðgjaldi launamanns í tilviki séreignasparnaðar, falli brott. Ljóst er að í þeim umsögnum sem fram hafa komið um málið er í flestum og nær öllum tilvikum dregin upp sú mynd að þetta sé óskynsamleg aðgerð sem draga muni úr hvata til sparnaðar.

Markmiðið með þessari heimild var að efla lífeyrissparnað landsmanna og einnig þjóðhagslegan sparnað. Bæði þessi markmið eru enn í fullu gildi og því ekki tilefni til að afnema þær heimildir sem stutt hafa við séreignarsparnað, með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Fyrir þá sem vinna á almennum vinnumarkaði og opinbera starfsmenn, aðra en starfsmenn sveitarfélaga, hafa þessir hvatar verið þríþættir: Í fyrsta lagi hefur sparandinn fengið skattfrestun á viðbótariðgjaldi. Í öðru lagi var samið í kjarasamningum 1998 um sérstakt 2% framlag launagreiðanda á móti greiddu iðgjaldi launamanns. Í þriðja lagi var lögum um tryggingagjald tvíbreytt þannig að launagreiðendur fengu afslátt af tryggingagjaldi sem nam 0,1% fyrir hvert prósent sem starfsmenn greiddu í viðbótarlífeyrissparnað, upp að 4% sparnaði. Afslátturinn lagðist við viðbótarlífeyrissparnað launamannsins. Lækkun tryggingagjaldsins sem rann til viðbótarlífeyris sparenda mátti þó aldrei vera meiri en 10% af iðgjaldahluta hans.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessir þrír hvatar hafa leitt til þess að smám saman hefur þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaðinum orðið mjög góð.

Í þeim gögnum sem við höfum fengið frá fjmrn. um málið sést hvaða áhrif þessi viðbótarlífeyrissparnaður hefur haft. Á árinu 2000 var fjöldi framteljenda sem greiddu til lífeyrissjóða um 150 þúsund en var á árinu 2003 tæplega 163 þúsund. Þessi viðbót sem hér er um að ræða, þessir hvatar til aukins lífeyrissparnaðar, birtast í því að á árinu 2000 greiddu um 30 manns þessa viðbót. Á árinu 2003 eru greiðendur 70.566. Það sýnir hve miklum árangri þetta hefur skilað í sparnaði landsmanna. Með þessari breytingu er a.m.k. dregið úr einum þessara hvata sem er ástæða til að mótmæla harðlega.

Í umsögnum þeirra sem sendu umsögn um málið kemur sama skoðun fram. Í umsögn ASÍ segir, með leyfi forseta:

,,Það er að auki beinlínis óráðlegt að fella brott hvata til þjóðhagslegs sparnaðar þegar allar spár benda til þess að búast megi við verulegri þenslu í hagkerfinu.

Einnig má benda á að verði umrætt frumvarp að lögum er verið að rýra kjör launafólks um 500-600 milljónir á ári. Slík kjaraskerðing mun ekki auðvelda komandi kjarasamningsgerð.``

Það er ástæða til að staldra ögn við þetta, herra forseti. Það var ítrekað af fulltrúum ASÍ sem komu á fund nefndarinnar að þetta mundi hafa mjög neikvæð áhrif á komandi kjarasamningagerð. Þeir nefndu einnig neikvæð skilaboð sem fólgin væru í þessari breytingu, að draga úr hvata til sparnaðar.

Herra forseti. ASÍ bendir á að það sé verið að rýra kjör launafólks um 500--600 millj. kr. Eins og við höfum farið í gegnum er það einungis hluti af þeim pakka sem nú er sendur inn á heimilin til launafólks rétt fyrir jólin þar sem kjör heimila og einstaklinga eru rýrð með margvíslegum hætti. ASÍ telur að sá pakki sé upp á 3,7 milljarða kr. Í því sambandi má nefna vaxtabæturnar sem við ræddum í gær. Þær eru lækkaðar um 600 millj. kr. Þeir nefna almennan tekjuskatt sem er hækkaður um 600 millj. með afnámi frádráttar vegna séreignasparnaðar sem við ræðum hér. Atvinnuleysisbætur eru lækkaðar um 170 millj.

Þeir tala einnig um að sjúkratryggingar séu lækkaðar um 740 millj. Þar erum við að tala um lækkun á lyfjakostnaði upp á 450 millj. kr. Henni á að ná með því að hækka greiðslur almennings fyrir lyf og reyna að ná niður kostnaði með því að ávísa á ódýrari lyf. Hluti af þessum 740 millj. kr. eru niðurgreiðslur hjálpartækja. Þær lækka um 150 millj. kr. og er m.a. horft til þess að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku í öndunargrímum, jafnframt því að lengja þann tíma sem líður milli þess að fatlaðir geti fengið bifreiðastyrk. Í dag er sá tími fjögur ár. Spara á 50 millj. í kostnaði við sjúkraþjálfun og hækka komugjöld til sérfræðinga. Þessi aukning á álögur heimilanna felst í lækkun sjúkratrygginga upp á 740 millj. kr. Þessu til viðbótar eru vaxtabæturnar sem hér hefur verið rætt um. Það virðist jafnframt sérlegur áhugi hjá ríkisstjórninni að ráðast á kjör atvinnulausra. Bætur til þeirra eiga að lækka, m.a. með því að greiða ekki fyrstu þrjá dagana í atvinnuleysi. Það er kannski mesta skömm ríkisstjórnarinnar við fjárlagagerðina, að senda fátæku fólki sem á varla fyrir jólamatnum slíka kveðju fyrir jólin.

Til viðbótar þessu, herra forseti, bætist hækkun á bensínskatti og þungaskatti. Það eru 1.200 millj. kr. með virðisaukaskatti þannig að bensínlítrinn sem bíleigendur borga hækkar, frá því að það frv. varð að lögum, um tæpar 4 kr.

Hlutirnir hafa heldur betur snúist upp í andhverfu sína frá kosningunum, þegar stóð upp úr öllum frambjóðendum stjórnarflokkanna að lækka ætti skattana og bæta kjör heimilanna. Við erum hér á síðasta sprettinum fyrir jólin að ræða hvert frv. á fætur öðru sem felur í sér ýmsar álögur á heimilin í landinu með margvíslegum hætti. Fyrir þeim álögum verða sjúklingarnir og atvinnulausir, ekki sleppa þeir frekar en fyrri daginn hjá núv. ríkisstjórn. Það er árlegur viðburður frá því að ríkisstjórnin tók við árið 1995, að skerða kjör þessara hópa. Það hefur verið gert jafnt og þétt. Bíleigendur verða iðulega fyrir barðinu á ríkisstjórninni. Hér er bensínlítrinn og álögur á bifreiðaeigendur með því hæsta sem þekkist. Ríkisstjórnin gengur meira að segja svo langt, þegar við erum að sigla inn í þenslutímabil, að draga úr hvatanum til sparnaðar með því frv. sem hér er á dagskrá, herra forseti.

[11:15]

Út af fyrir sig er óþarfi að fara ítarlega yfir þessar umsagnir. Það var gert við 2. umr. málsins. Í örfáum orðum er þó hægt að segja, herra forseti, að Landssamtök lífeyrissjóða leggjast gegn samþykkt þessarar breytingar á lögum um tryggingagjald. BSRB leggst gegn samþykkt frv., segir að það rýri kjör launafólks og dragi jafnframt úr hvata til lífeyrissparnaðar. Orðrétt segir BSRB, með leyfi forseta:

,,Auk þess orkar tímasetning tvímælis í ljósi þeirrar þenslu sem ætla má að verði í efnahagslífinu á komandi missirum. Við slíkar aðstæður hefur verið talið heppilegra að örva sparnað.``

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerir mjög alvarlegar athugasemdir við frv., lýsir sig ósammála því og segir, með leyfi forseta:

,,Enn er mikil þörf til að auka þjóðhagslegan einkasparnað, sérstaklega vegna mikilla umsvifa í íslensku efnahagslífi á næstu árum. Í stað þess að um 500 milljónir króna endi á lífeyrisreikningum launþega og tilsvarandi þjóðhagslegur einkasparnaður myndist, aukast tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. Þessum auknu tekjum ríkissjóðs er þá hægt að ráðstafa til verkefna á vegum hins opinbera með tilsvarandi innspýtingu í efnahagslífið eða í að greiða niður skuldir með tilsvarandi þjóðhagslegum sparnaði. Af þessum þremur kostum er aukning þjóðhagslegs einkasparnaðar æskilegastur.``

Það er akkúrat það sem ríkisstjórnin er að draga úr með þessari breytingu sem við ræðum hér.

Í öðru lagi segir Hagfræðistofnunin, með leyfi forseta:

,,Ráðstöfunin mun draga úr vilja þess helmings íslenskra launþega sem ekki tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði nú til að hefja þátttöku.``

Mér láðist að geta um það áðan að í umsögn ASÍ eru einmitt hafðar áhyggjur af þessu, þ.e. að stórir hópar launafólks hafi ekki nýtt sér viðbótarlífeyrissparnaðinn nema að takmörkuðu leyti og þetta eigi sérstaklega við um þá tekjulægri. Undir þetta tekur Hagfræðistofnun, að ráðstöfunin muni draga úr vilja þess helmings íslenskra launþega sem ekki tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði nú til þess að hefja þátttökuna, þ.e. þegar verið er að draga úr en ekki að auka hvatann.

Hagfræðistofnun segir í þriðja lagi, með leyfi forseta:

,,Á hverju ári bætast 2--3 þúsund nýir starfsmenn við á íslenskan vinnumarkað og mun ráðstöfunin draga úr hvatanum fyrir þessa starfsmenn til að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.``

Í umsögn Hagfræðistofnunar segir einnig, með leyfi forseta:

,,Almannatryggingakerfið og almenna lífeyriskerfið munu í framtíðinni gefa eftirlaunaþegum færi á að njóta um 65--75% meðaltekna sinna eftir að sest er í helgan stein, ef fullum réttindum er náð. Viðbótarlífeyrir bætir um 10 prósentustigum við þá tölu, miðað við að greitt sé alla starfsævi í viðbótarlífeyrissjóð og að ávöxtun sé þokkaleg. Jafnframt er ljóst að því hærri sem lífeyrir er úr almennum sjóðum og viðbótarlífeyrissjóðum, því minni verður þunginn á almannatryggingar í framtíðinni vegna tekjutenginga.``

Það eru viðbótarrök fyrir þessu eins og Hagfræðistofnun bendir á, þ.e. að því hærri sem lífeyrir er úr almennum sjóðum, m.a. vegna séreignasparnaðar sem verið er að draga úr, og viðbótarlífeyrissjóðum, því minni verður þunginn á almannatryggingar í framtíðinni vegna tekjutenginga. Ekki er víst að mikill sparnaður sé í þessu þegar öllu er á botninn hvolft og allar hliðar á málinu hafa verið dregnar fram. En svo virðist oft vera að þegar ríkisstjórnin ræðst í sparnað þá er hann oft óhugsaður, það vantar að fara yfir málið í heild sinni, hvort þetta sé í raun og veru sparnaður, hvort þessi útgjöld sem verið er að spara komi fram einhvers staðar annars staðar eða ef verið er að spara í heilbriðigskerfinu, hvort það komi þá fram í félagslega kerfinu o.s.frv. Það er oft sem við brennum okkur á því, herra forseti, að hlutirnir virðast ekki gaumgæfðir sem skyldi hjá hæstv. ríkisstjórn.

Landsbanki Íslands er á móti þessu og tína má til fleiri aðila.

Herra forseti. Frv. sem við ræðum fyllir flokk þeirra mörgu mála í þinginu þar sem ríkisstjórnin er að fara óskynsamlegar leiðir, þar sem hún er að þrengja kjör fólksins með óskynsamlegum hætti. Við í þingflokki Samfylkingarinnar höfum lýst okkur alfarið á móti þeirri leið sem hér er farin og munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn frv. þegar það kemur til atkvæðagreiðslu hér síðar.