Aðild starfsmanna að Evrópufélögum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 12:09:12 (2762)

2003-12-05 12:09:12# 130. lþ. 43.13 fundur 402. mál: #A aðild starfsmanna að Evrópufélögum# (EES-reglur) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um aðild starfsmanna að Evrópufélögum. Lagafrv. þetta sem samið er í félmrn. tengist frv. um Evrópufélög sem viðskrh. hefur mælt fyrir á Alþingi.

Hinn 8. október 2001 samþykkti Evrópusambandið reglugerð ráðsins nr. 2157/2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög. Jafnhliða var samþykkt tilskipun nr. 2001/86/EB um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

Evrópufélög eru nýtt félagsform og kallar innleiðing tilskipunarinnar á lagabreytingar hér á landi. Um atriði í tilskipuninni sem laga þurfti í frv. að íslenskum aðstæðum var haft náið samráð við aðila vinnumarkaðarins og hefur náðst full sátt við þá um efni frumvarpsins.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er markmið þess að vernda rétt starfsmanna Evrópufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi Evrópufélagsins sem þeir vinna hjá og að tryggja að gildandi reglur um aðild starfsmanna hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun Evrópufélagsins. Frumvarpið, verði það að lögum, mun því tryggja áunninn rétt starfsmanna til að taka þátt í ákvörðunum í Evrópufélaginu og önnur þau réttindi sem kalla má atvinnulýðræði.

Réttindi starfsmanna sem eru í gildi áður en Evrópufélag er stofnað skulu vera grundvöllur að rétti starfsmanna til að eiga aðild að Evrópufélaginu. Sú regla gildir ekki aðeins um stofnun Evrópufélags heldur einnig um skipulagsbreytingar í starfandi Evrópufélagi og félögum sem verða fyrir áhrifum af slíkum skipulagsbreytingum.

Erfitt er að segja fyrir um þýðingu þessa nýja félagsforms fyrir íslensk fyrirtæki eða vinnumarkaðinn hérlendis. Þótt fyrir fram megi ætla að það verði einkum stórfyrirtæki sem hugsanlega nýti sér þennan möguleika er rétt að hafa í huga að ekki er gert að skilyrði að þátttökufélög hafi tiltekinn fjölda starfsmanna eða ákveðna veltu til að geta stofnað Evrópufélag. Í reglugerðinni er þó gert að skilyrði fyrir stofnun Evrópufélags að hlutafé verði að lágmarki 120 þús. evrur.

Í frumvarpinu er kveðið á um að þegar ákveðið hefur verið að stofna Evrópufélag skuli framkvæmdastjórnir eða stjórnir þeirra félaga sem þátt taka í stofnun þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna félaganna um tilhögun á aðild starfsmanna í Evrópufélaginu. Sérstök samninganefnd er í forsvari fyrir starfsmenn þátttökufélaga við þær viðræður.

Eins og fram kemur í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því að fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í sérstöku samninganefndinni skuli kosnir af trúnaðarmönnum innan fyrirtækisins en starfsmenn sem ekki eigi trúnaðarmann skuli velja sér sameiginlegan fulltrúa sem tekur þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina. Séu ekki trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfsstöðvar þess rétt á að taka þátt í kjörinu.

Herra forseti. Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem ætlað er að tryggja rétt fulltrúa starfsmanna í samninganefndinni til að fá upplýsingar um þau fyrirtæki sem standa að stofnun Evrópufélags og áform þeirra er varða starfsemi félagsins. Einnig er kveðið á um rétt sérstöku samninganefndarinnar til að kalla eftir sérfræðiaðstoð og bera þau félög sem taka þátt í stofnun Evrópufélags allan kostnað af starfi nefndarinnar.

Ég tel rétt að taka fram, herra forseti, að ákvæði frumvarpsins gilda eingöngu um Evrópufélög og hefur það engin áhrif á rétt starfsmanna annarra fyrirtækja til upplýsinga og samráðs. Tilskipun nr. 2001/86/EB er þannig eingöngu ætlað að vernda rétt starfsmanna til aðildar að málum og ákvörðunum sem snerta starfsemi Evrópufélagsins sem þeir vinna hjá.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. félmn. og 2. umr.