Tímabundin ráðning starfsmanna

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 12:13:11 (2763)

2003-12-05 12:13:11# 130. lþ. 43.14 fundur 410. mál: #A tímabundin ráðning starfsmanna# (EES-reglur) frv. 139/2003, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Frumvarp þetta er lagt fram til innleiðingar á tilskipun 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem Evrópusamband verkalýðsfélaga, Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild hafa gert. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella tilskipun þessa undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið 19. maí 2000, samanber ákvörðun nefndarinnar nr. 43/2000.

Áhersla var lögð á að samtök aðila vinnumarkaðarins kæmust að samkomulagi um efni rammasamningsins í kjarasamningum. Þegar útséð var um að samningar tækjust milli þeirra óskuðu þau eftir því við félmrh. að hann legði fram frv. um efnið. Dregist hefur því að innleiða umrædda tilskipun og hefur félmrn. borist rökstutt álit frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna málsins. Er því mikilvægt að frv. þetta verði afgreitt á yfirstandandi þingi.

Herra forseti. Á íslenskum vinnumarkaði er meginreglan sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið. Frumvarpi þessu er ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu og er því gert ráð fyrir að ótímabundnir ráðningarsamningar verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Engu að síður má gera ráð fyrir því að tímabundnir ráðningarsamningar geti á tilteknum sviðum og í tilteknum starfsgreinum hentað bæði vinnuveitendum og launamönnum.

Rammasamningur sá er hér um ræðir kveður á um þær lágmarksreglur sem skuli gilda um starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið. Lagt er til að samningar um grunnstarfsnám og aðrir námssamningar verði undanskildir gildissviði frumvarpsins, sem og störf sem eru liðir í þjálfunar-, aðlögunar- eða endurmenntunaráætlunum er njóta stuðnings opinberra aðila. Er þetta gert í samræmi við heimild í 2. gr. rammasamningsins. Þá er gert ráð fyrir að frv. gildi ekki um starfsmenn tímabundinnar ráðningarþjónustu þegar þeir eru framleigðir til notendafyrirtækis, samanber inngangsorð samningsins.

Markmið frv. er í samræmi við tilgang rammasamningsins, þ.e. að bæta gæði tímabundinna ráðninga með því að tryggja beitingu meginreglunnar um bann við mismunun. Einnig er markmiðið að setja rammaákvæði í því skyni að koma megi í veg fyrir misnotkun sem byggist á því að hver tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum. Sömu sögu er að segja um skilgreiningar frv., annars vegar á starfsmanni með tímabundna ráðningu og sambærilegum starfsmanni með ótímabundna ráðningu.

Gert er ráð fyrir að starfsmaður með tímabundna ráðningu sé borinn saman við sambærilegan starfsmann sem ráðinn er ótímabundið. Sá starfsmaður skal starfa í sama fyrirtæki og er gert ráð fyrir að sá sem miðað er við sé ráðinn til óákveðins tíma í sama eða sambærilegt starf og það sem starfsmaðurinn með tímabundna ráðningu sinnir. Er kveðið skýrt á um að starfsmaður með tímabundna ráðningu skuli hvorki njóta hlutfallslega lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en sambærilegur starfsmaður með ótímabundna ráðningu, af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið. Það er þó talið heimilt í þeim tilvikum er það telst réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

(Forseti (BÁ): Komið hefur fram ósk um að fundi verði frestað til klukkan hálftvö. Ég verð því að biðja hæstv. félmrh. að gera hlé á máli sínu.)

Ég verð við því.

(Forseti (BÁ): Fundi er frestað til klukkan hálftvö.)