Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 14:49:43 (2808)

2003-12-05 14:49:43# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn ber að sjálfsögðu ábyrgð á því fjárlagafrv. sem nú er að fá lokaafgreiðslu, þessu fjárlagafrv. sem kennt verður við svik eins og ég sagði fyrr í dag, þessu fjárlagafrv. sem ekki er í tengslum við raunveruleikann, þessu fjárlagafrv. sem minnir meira á sýndarveruleik en raunveruleikann sjálfan.

Hæstv. fjmrh. talaði um að mikill afgangur væri á fjárlögunum. Því miður, hæstv. fjmrh., er hætt við því að þegar fjáraukalög fyrir árið 2004 verða afgreidd næsta haust verði afgangur lítill. Þess vegna er alvarlegt fyrir atvinnulífið og fyrir þjóðarbúið að þau skilaboð skulu vera send út til samfélagsins að fjárlög séu ekki marktækt plagg. Það er nú sem aldrei fyrr þegar við erum að fara inn í þensluskeið að mikilvægt er að vel sé haldið utan um ríkisfjármálin. Því miður, herra forseti, er ekki svo nú. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun sitja hjá við þessa afgreiðslu. Ábyrgðin er hjá ríkisstjórnarflokkunum.