Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:26:26 (2821)

2003-12-05 15:26:26# 130. lþ. 43.11 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ýmislegt benda til þess að menn hafi ekki skoðað fyrra málið með nægilega mikilli gaumgæfni. Ég hef a.m.k. þann grun og vonandi reynist hann rangur, að hæstv. landbrh. sé í erfiðari aðstöðu til þess að taka á erfðablöndun í framtíðinni en hæstv. sjútvrh., ef frv. verður samþykkt. Ég verð að segja það að ég trúi því eiginlega ekki almennilega að það hafi ekki verið hægt að setja sambærileg ákvæði í frv. landbrh. þó svo að leyft hafi verið eldi á einni tegund af laxi við landið, það er jú staðreynd sem liggur fyrir. En ég held að framtíðin sé mikilvægari í þessu efni en fortíðin og menn þurfi fyrst og fremst að hugsa til framtíðarinnar í þessum málefnum. Mér finnst að það sé gert með þessu frv. en hef meiri áhyggjur af hinu fyrra.