Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:28:44 (2823)

2003-12-05 15:28:44# 130. lþ. 43.11 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim lagabálkum sem heyra undir sjútvrn., er gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun sé ráðuneytinu til ráðuneytis hvað öll mál sem þessi varðar. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það, með allri virðingu fyrir stofnunum umhvrn., að það er engin stofnun á Íslandi sem kemst með tærnar þar sem Hafrannsóknastofnun hefur hælana varðandi sjávardýr almennt og umhverfi þeirra. Ég held því að Hafrannsóknastofnun sé fullfær um að veita ráðgjöf um þetta efni.

Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að mínu mati að sjútvn. leiti umsagnar umhvn. um málið, en að eldi sjávardýra og það umhverfi sem nytjastofnarnir hrærast í heyri undir sjútvrn. Það er yfirleitt mjög erfitt í stjórnsýslunni að blanda ábyrgð tveggja ráðuneyta saman þegar að slíkum málum kemur, hvað þá ef þau eru orðin þrjú eins og raunverulega væri um að ræða þegar hér væri komið sögu.