Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:32:11 (2826)

2003-12-05 15:32:11# 130. lþ. 43.11 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við fyrstu sýn virðist þetta frv. sem hér er flutt af hæstv. sjútvrh. vera afar skynsamlegt. Eftir því sem ég les þetta stutta frv. er hér um verndarfrumvarp að ræða, þ.e. frv. sem á rætur sínar að rekja til þeirrar staðreyndar að framandi lífverur í okkar villtu náttúru geta valdið óbætanlegu tjóni. Ég sé ekki annað en að hér sé hugmyndafræðin skýr og hún byggi á hlutum eins og m.a. samningi um líffræðilegan fjölbreytileika og mér þætti vænt um að fá staðfestingu hjá hæstv. sjútvrh. á því að svo sé.

Ég verð að segja að þegar litið er yfir þetta frv. rifjast upp fyrir manni það frv. sem hv. þm. Jóhann Ársælsson gat um hér áðan og við fjölluðum um fyrir skemmstu, frv. til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði og innflutning dýra. Byggði það frv. á þeim bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin setti í sumar sem gerðu í raun og veru hið þveröfuga miðað við þetta frv. Þar var um að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að opna fyrir innflutning á eldisdýrum. Reyndar var þar um að ræða eldi ferskvatnsfiska, laxa, en í því frv. og í þeim lögum sem leiddu af því var opnað fyrir miklu meira en innflutning á laxi til eldis.

Ég tel að þessi tvö frv., það sem landbrh. flutti hér fyrir nokkrum vikum og síðan þetta sem hæstv. sjútvrh. talar nú fyrir, stangist hraustlega á. Ég verð að segja að frv. hæstv. sjútvrh. er mér mun meira að skapi en það frv. sem hæstv. landbrh. talaði fyrir. Ég held að það sé alveg tilefni til þess hér við 1. umr. að hæstv. sjútvrh. segi okkur örlítið meira um þau grundvallarsjónarmið sem hér liggja að baki. Mér finnst ekki eðlilegt að ríkisstjórnin leiði í lög varúðarreglur sem gildi um ákveðna þætti eldismála en ekki aðra.

Ég vil að hæstv. ráðherra segi okkur hér í hverju munurinn á þessu tvennu er fólginn. Hvers vegna getur það gerst í sömu ríkisstjórninni að sjútvrh. fær að flytja mál sem reisir veggi gegn mögulegri erfðablöndun á meðan annar rífur sömu veggi niður? Ég sé ekki annað en að hér rekist hvað á annars horn og við þurfum að fá frekari skýringar frá hæstv. sjútvrh. um þessi mál.

Sömuleiðis væri alveg eðlilegt að hann segði okkur hvað honum þætti um þau ákvæði sem leidd voru í lög hér fyrir skemmstu með frv. hæstv. landbrh. þar sem opnað er fyrir möguleika á því að hér séu notuð flutningatæki sem mögulega geta borið með sér lífverur, lindýr eða krabbadýr eða smáverur, sem geta engu síður en stærri lífverur valdið gífurlegum usla í lífkerfi okkar.

Ég sé ekki betur en að hér þurfi að taka heildstætt á málum. Ég fagna því frv. sem hér er flutt því að mér virðist það vera einlægt verndarfrumvarp en ég vil að hæstv. sjútvrh. segi okkur hvers vegna tveir ráðherrar í sömu ríkisstjórninni geta látið málin stangast svona hraustlega á.