Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:57:05 (2834)

2003-12-05 15:57:05# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki þannig sem ég lagði málið upp heldur gagnrýndi ég að ekki væri gætt jafnræðis í umfjöllun um landbúnaðarmál. Menn horfa bara á tvær greinar í landbúnaði eins og gert hefur verið í gegnum tíðina og hefur engin breyting orðið á hvað það varðar.

Hv. þm. sagði að ég hefði líklega misskilið allt málið. Nei, ég hef ekkert misskilið þetta mál. Ég skil vel hvað er á ferðinni. Menn eru ekki að krefjast framleiðslu af þeim bændum sem hér um ræðir. Ég held því hins vegar fram að ef menn vildu í raun breyta stefnunni þá ætti að gefa öllum bændum kost á þessum möguleikum. Þannig væri hægt að draga úr framleiðslunni. Úr því að menn ætla að bjóða þessum sömu bændum upp á að koma aftur inn í kerfið að þessu tímabili loknu þá held ég að kannski væri betra að það væru bændur sem hefðu til þess þrek og aldur að hefja búskap að nýju, ef það er hugsunin í því sem fram kemur í textanum.

Í þetta vantar hins vegar framtíðarhugsunina. Eins og ég hef verið að lýsa virðist hæstv. ríkisstjórn eins og ríkisstjórnir undangenginna ára halda sig við einhliða stuðning eins og hann hefur verið, aðallega við tvær búgreinar með þeim árangri sem allir sem hafa fjallað um þessi mál þekkja. Það er verið að segja við bændur: Þið skuluð framleiða mjólk og þið skuluð framleiða sauðakjöt. Annars fáið þið ekki stuðning frá hinu opinbera.