Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 16:05:41 (2836)

2003-12-05 16:05:41# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, Flm. DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir góðar undirtektir við þetta frv. og tek undir með honum að vandinn er mikill í sauðfjárræktinni og þetta eru aðeins bráðaaðgerðir sem verið er að gera hér núna. Eins og ég sagði áðan í andsvari mínu við hv. þm. Jóhann Ársælsson þá tel ég það mjög mikilvægt að sauðfjárbændur vinni að því að gera nýjan samning við ríkið. Það var ekki hægt í þessari nefnd að gera heildaruppstokkun á þessu.

Ég vil aðeins minnast á það að hv. þm. nefnir orðið styrkur. Mitt álit er það að beingreiðslur til bænda séu ekki síður stuðningur við neytendur en bændur. Við vitum að landbúnaðarframleiðsla nánast alls staðar í heiminum er studd til þess að halda niðri matarverði og það höfum við einnig gert hér á landi. En ég tel það vera mjög mikilvægt að bændur noti þetta tækifæri þar sem ríkisstjórnin opnar á það að gera við þá annaðhvort nýjan samning í sauðfjárræktinni eða að hluta til.

En aðeins vegna beingreiðslanna þá tel ég að þær hafi verið mjög mikilvægt skref því að beingreiðslurnar komu beint til bænda en fóru ekki í gegnum milliliðina og með beingreiðslunum geta bændur miklu frekar séð hag sínum borgið með því að hagræða sjálfir á búum sínum.