Umferðarlög

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:10:12 (2846)

2003-12-06 10:10:12# 130. lþ. 44.1 fundur 419. mál: #A umferðarlög# (yfirstjórn málaflokksins) frv. 132/2003, GHall
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:10]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er afar merkilegt mál á ferðinni og í þá átt og veru sem ég vona að muni leiða af sér aðra tilflutninga innan ráðuneytanna. Það hefur ekki verið mikil breyting þar innan dyra í gegnum árin. Hins vegar hafa ráðuneytin, virðulegi forseti, oft sent bréf út til undirstofnana sinna þar sem þær eru hvattar til stefnumótunar og framtíðarsýnar og beðnar um að taka til í sínum ranni.

Ég er þeirrar skoðunar að einnig í ráðuneytunum sjálfum þurfi að sameina ýmis verkefni, þ.e. flytja á milli og aðlaga sig mjög breyttum tímum eins og árin hafa nú liðið frá því að nokkuð merkilegt hafi gerst þar. Hér er stigið stórt skref í átt til öryggismála á vegum. Það er alveg ljóst eins og hér segir í athugasemdum við lagafrv., með leyfi forseta:

,,Flutningur umferðarmála til samgönguráðuneytisins er því í rökréttu samræmi við þessa skipan mála í öðrum greinum samgangna. Þá er við því að búast að samlegðaráhrif af sameiginlegri yfirstjórn Vegagerðar og Umferðarstofu muni þegar fram líða tímar geta skilað sér í auknum árangri og betri þjónustu`` og að sjálfsögðu, sem kannski er mælt fyrir í textanum, bættu umferðaröryggi. Það er alveg ljóst að fyrirkomulagið hefur ekki verið nógu heppilegt fram að þessu. Vegagerðin hefur séð um vegarlagninguna og síðan nánast yfirgefið veginn að öðru leyti en með viðhaldi. Öryggismálin hafa nánast ekkert komið Vegagerðinni við, þannig lagað, þótt auðvitað hafi hún haft vakandi auga með þeim. Það hlýtur að vera að frá upphafi hönnunar verksins og til loka séu allir þættir mála þar innan dyra, bæði hvað varðar hönnun vegarins og ekki hvað síst þegar til öryggismála er litið.

Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Kannski vantar súrefni í vatnið, hið staðna glas, en það er þó vel að í þessa átt er haldið með þessu merka frv. sem ég fagna og veit að mun leiða til góðs í umferðaröryggismálum.