Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:22:41 (2851)

2003-12-06 10:22:41# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar endurspeglaði reynsluleysi hæstv. ráðherra sem er að sitja sinn fyrsta vetur á þingi því að hann veit ekki hvernig vinnubrögðin ganga fyrir sig í nefndum þingsins sem hann hefur aldrei starfað í. Ég mótmæli því hvernig hæstv. ráðherra sýnir þinginu þann hroka sem fram kom í svari hans hér áðan. Það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á þau vinnubrögð að fleygja inn málum sem skipta miklu eins og þetta fyrir öryggi fiskvinnslufólks sem þarf að fá vandaða málsmeðferð í þingnefndinni og ekki síður það mál sem hæstv. ráðherra virðist vera staðráðinn í að leggja fram sem er að skerða atvinnuleysibæturnar. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að endurskoða vinnubrögð sín og a.m.k. hætta við að leggja fram það mál sem er skerðing á atvinnuleysisbótum fyrst hann ætlar að gera það fjórum dögum áður en þingið hættir fyrir jól. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, herra forseti.