Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:28:22 (2858)

2003-12-06 10:28:22# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:28]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufólks gilda sérstök lög. Þarna er um að ræða aðra framkvæmd en varðar aðrar starfsgreinar. Því hefur verið haldið fram að með þeim breytingum sem hér eru í bígerð sé verið að kollvarpa núverandi kerfi og gera samninga um kauptryggingar ómögulegar. Ég hafna því. Markmiðið er að ná fram aukinni skilvirkni í kerfinu. Það hefði verið hægt að ganga lengra. Það var hins vegar mitt mat að breytingar sem fælust í því að leggja kerfið af væru ekki tímabærar, nægilega langt væri gengið að sinni.