Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:33:58 (2865)

2003-12-06 10:33:58# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að rifja upp þegar hér er verið að breyta lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks hvernig þessi lög eru til komin sem nú á að fara að breyta með þessu frv. Nú á að þrengja verulega að fiskvinnslufólki og skerða atvinnuöryggi þess. Þau réttindi sem fiskvinnslufólk hefur búið við má rekja til kjarasamninga frá 1995 sem Verkamannasambandið gerði en þá var gerð krafa um að fiskvinnslufólk byggi við sömu uppsagnarákvæði og í öðrum starfsgreinum. Krafan var þá um að fella úr kjarasamning heimild til að taka starfsmenn af launaskrá vegna hráefnisskorts í fiskvinnslu. Samdráttur var þá í veiðikvótum. Það leiddi til þess að erfitt var að halda uppi samfelldri vinnslu og var tilhneiging til þess að flytja hráefni á markaði erlendis.

Vinnslustöðvarnar völdu fremur að senda hráefni frá sér en að halda uppi slitrótti vinnslu sem þýddi að þær urðu að taka starfsfólk inn á kauptryggingu og á launaskrá án þess að hafa verkefni. Fiskvinnslufólk var oft svo vikum skipti á atvinnuleysisbótum sem voru og eru auðvitað enn langt undir framfærslumörkum. Atvinnuöryggi fólks í fiskvinnslu var því verulega bágborið og í kjarasamningum sem þá voru uppi var það úrslitakrafa að breyting yrði á þessu ástandi. Niðurstaðan þá var sú að meira að segja atvinnurekendur skildu að það yrði að gera hér breytingar á og því skapaðist samstaða milli samningsaðila um lausn sem fæli í sér betri afkomutryggingu starfsmanna og að atvinnugreinin tæki á sig kvaðir og kostnaðarauka sem af þessu mundi leiða. Samkomulagið fólst í því að Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi til vinnslustöðvanna atvinnuleysisbætur eða beint til fyrirtækjanna, en á móti greiddu þau muninn á bótaupphæð og launum samkvæmt kauptaxta og greiddu jafnframt launatengd gjöld sem tryggðu m.a. lífeyrisréttindi starfsmanna í löngu atvinnuleysi.

Herra forseti. Það eru einmitt þessi réttindi, þetta atvinnuöryggi fiskvinnslufólks sem nú á að skerða, en samkomulagið frá 1995 gerði ráð fyrir allt að 60 dögum á hverjum 12 mánuðum. Í reynd var þetta þríþætt samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisins, en sett var reglugerð sem heimilaði Atvinnuleysistryggingasjóði að greiða atvinnuleysisbætur þannig beint til fyrirtækjanna sem síðan greiddu mismuninn á launum og atvinnuleysisbótum þannig að atvinnuöryggi og kauptrygging fiskvinnslufólks var stórlega bætt. Þetta leiddi líka til þess að vinnslan hélst fremur í landi.

Þetta var á þeim tíma, herra forseti, og ágætt að hæstv. ráðherra átti sig á því, úrslitaatriði til að loka kjarasamningum án átaka. Nú átta árum seinna og einhliða eins og ríkisstjórninni einni er lagið á að brjóta þetta samkomulag. Það heitir samningsrof, herra forseti, sem er nánast að verða daglegt brauð hjá þessari ríkisstjórn sem er í eilífu stríði við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Annaðhvort eru það öryrkjar, aldraðir eða atvinnulausir og þar svífst ríkisstjórnin einskis.

Herra forseti. Samningsrof við þessa hópa er bara smámál hjá ríkisstjórninni. Við urðum vitni að því í gær þegar ríkisstjórnin sveik öryrkjana á eftirminnilegan hátt. Þau svik verða lengi höfð í minnum og hæstv. landbrh. og varaformanni Framsfl. til ævarandi skammar þau ummæli sem hann lét þá falla þegar verið var að skerða kjör öryrkjanna. Hæstv. landbrh. á það eftir, herra forseti, að biðja öryrkja um land allt afsökunar á þessum ummælum sem munu verða svartur blettur á ráðherranum svo lengi sem hann lifir.

Herra forseti. Virðing fyrir þessum hópum og rétti þeirra er vægast sagt takmörkuð. Nú verður fiskvinnslufólkið fyrir barðinu á ríkisstjórninni. Hér er verið að brjóta á þessu fólki rétt sem var hluti af kjarasamningum á vinnumarkaði á árinu 1995 sem ríkisstjórnin átti aðild að. Þetta er ekki síst fólk í minni og veikari byggðarlögum þar sem örugglega mörg fyrirtæki eru nokkuð háð því að hafa þá baktryggingu sem í þeirri reglu felst sem hér er verið að breyta.

Vissulega hefur framkvæmdin varðandi þessi ákvæði ekki verið gagnrýnislaus enda er verið að niðurgreiða laun í einni atvinnugrein og því er líka haldið fram að einhver fyrirtæki hafi verið að misnota þessi ákvæði. En ef það er svo, herra forseti, ef verið er að misnota þessi ákvæði þá á að taka á því öðruvísi en að afnema atvinnuöryggi fiskvinnslufólks. Sú skylda hlýtur að hvíla á Vinnumálastofnun að hafa eftirlit með því að misnotkun eigi sér ekki stað. Það gengur ekki að taka á málinu eins og hér á að gera, herra forseti, þ.e. að setja í uppnám atvinnuöryggi fiskvinnslufólks.

Auðvitað liggur beint við að nú verði endurvakin krafan um sömu uppsagnarákvæði og eru í öðrum atvinnugreinum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því og hvort ekki sé rétt að afnema það ákvæði sem er í lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla þannig að fiskvinnslufólk sitji við sama borð að því er varðar uppsagnarfrest frá störfum og fólk í öðrum starfsgreinum. Í 3. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:

,,Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.``

Herra forseti. Þetta ákvæði er frá árinu 1957 og er auðvitað full ástæða til að skoða það í tengslum við þá lagabreytingu að fella niður þetta ákvæði. Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður matvælasviðs Starfsgreinasamband Íslands, minnir reyndar á það í grein sem hann skrifar 10. nóvember í Morgunblaðið. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Athyglisvert er að ráðherrann hyggst ekki beita sér fyrir breytingum á 3. gr. laga nr. 19/1979 sem heimilar fiskvinnslufyrirtækjum að senda starfsmenn sína heim þegar ekki er vinnsla vegna hráefnisskorts.``

Það er sú grein sem ég var að vitna í. Ég held að það sé rangt sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari, að þessi breyting mundi fyrst og fremst bitna á fyrirtækjunum en ekki fiskvinnslufólki. Og það að vitna í þessa grein tel ég að sanni það og á meðan þessi grein er inni, herra forseti, í þessum lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests, sérákvæði varðandi fiskvinnsluna, þá tel ég að þessi breyting muni bitna með fullum þunga á fiskvinnslufólki.

Lítum síðan á hvaða áhrif þessi breyting hefur á kjör fiskvinnslufólks. Tekjuleg áhrif á kjör fiskvinnslufólks verða veruleg, sérstaklega í minni vinnslunum. Taxtalaun sérhæfðs fiskvinnslufólks með fimm ára starfsreynslu eru 95 þús. 247 kr. Við það bætist orlof 10,64% og framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð 6%. Atvinnuleysisbætur eru rúmar 70 þús. kr. Það á að fara að skerða þær niður í 60 þús. og skömm sé hæstv. ráðherra fyrir það. Þarna er því verulegur munur á. Það er ekki nóg að um verulega kjaraskerðingu sé að ræða heldur þarf fiskvinnslufólkið að búa í sífelldri óvissu um atvinnuöryggi sitt og afkomu sem auðvitað hefur áhrif á það hvort fólk vilji yfirleitt leita sér starfa, herra forseti, í þessari atvinnugrein. Þetta getur því haft víðtækari áhrif en menn ætla við fyrstu sýn. Meginmálið er þó að allar breytingar á skilyrðum geta haft veikjandi áhrif sem leiða til meira óöryggis með vinnu. Fólk sem hefur í fastalaun og kaupauka um 130 þús. kr. í mánaðarlaun og horfir fram á að verða í auknum mæli að fara niður á bætur sem eru rúmar 70 þús. kr. er auðvitað verið að svipta afkomuöryggi og ekkert annað.

Herra forseti. Ég vil vitna í afstöðu Aðalsteins Á. Baldurssonar og Arnars Sigurmundssonar, formanns Samtaka fiskvinnslustöðva, um þær breytingar sem hér er verið að gera. Aðalsteinn Á. Baldursson sem er formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands segir í Fréttablaðinu 2. desember sl., með leyfi forseta:

[10:45]

,,Þetta er stórmál. Ég get ekki, sem talsmaður fiskverkafólks, skrifað upp á kjarasamninga fyrir hönd þess ef skerðingunni verður haldið til streitu bótalaust.``

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, Arnar Sigurmundsson, telur að höggvið sé of nærri kauptryggingunni. Það getur stofnað komandi kjarasamningum í voða. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta, í Fréttablaðinu:

,,Ég upplifi þetta þannig að ráðherra sé að ganga mjög nærri kerfinu, án þess þó að stúta því alveg. Nái breytingarnar að fullu fram að ganga geta þær kollvarpað núverandi ákvæðum um kauptryggingu fiskvinnslufólks og leitt til átaka á vinnumarkaði. Þegar upp verður staðið munu þær ekki leiða til lækkunar útgjalda hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.``

Þar höfum við það, herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af því að þessi breyting, sem hann beitir sér fyrir að knýja í gegnum Alþingi á þeim stutta tíma sem lifir af starfsáætlun þingsins fram að jólaleyfi, hafi veruleg áhrif inn í komandi kjarasamninga. Þegar formaður matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands segir að hann muni ekki skrifa upp á kjarasamninga ef þessari skerðingu verði haldið til streitu þá er alvara á ferðum. Hefur hæstv. ráðherra virkilega engar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta muni hafa á komandi kjarasamninga?

Það er ástæða til að vitna eilítið áfram í Aðalstein Baldursson, í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið 10. nóvember 2003. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann tekur undir að það geti staðist sem þar kemur fram. Nú veit ég ekki, herra forseti, hvort ráðherrann hlýðir á orð mín. Hann er alla vega einhvers staðar í felum í hliðarherbergi en ég vænti þess að hann heyri til mín. Í grein Aðalsteins segir, með leyfi forseta:

,,Tekjuskerðing fiskvinnslufólks á þessu tímabili getur numið allt að 100% því fjölmörg dæmi eru um í núverandi kerfi að starfsfólk haldi fullum launum í hráefnisleysi sé það á launaskrá fyrirtækisins í vinnslustoppi, fólk sem hefur mjög takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta.``

Ég vil spyrja hvort ráðherra taki undir það að þetta geti haft þau áhrif að tekjuskerðing fiskvinnslufólks geti í einhverjum tilvikum numið allt að 100%.

Í sömu grein kemur Aðalsteinn inn á 3. gr. laganna sem ég vitnaði í áðan um rétt verkafólks til uppsagnarfrests. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Þessi grein er löngu orðin úrelt enda hafa útgerðarhættir breyst mikið á þeim 25 árum sem liðin eru frá setningu þessara laga.`` --- Ég verð að leiðrétta það. Ég tel að þetta ákvæði hafi verið í gildi í tæp 50 ár, frá árinu 1957 en einhverjar breytingar urðu á lögunum árið 1979 sem ég hygg að Aðalsteinn sé að vísa í. Hann segir síðan, með leyfi forseta:

,,Þessa grein ber að fella niður eða aðlaga nútíðinni. Niðurfelling þessarar greinar mundi treysta starfsöryggi fiskvinnslufólks og koma í veg fyrir óeðlilegar heimsendingar starfsfólks fiskvinnslufyrirtækja í hráefnisskorti.``

Ég ítreka spurningu mín til ráðherra. Síðar í greininni segir Aðalsteinn Baldursson, með leyfi forseta:

,,Dæmi eru um að fyrirtæki hafi farið frjálslega með þennan endurgreiðslurétt. Hins vegar munu tillögur félagsmálaráðherra fyrst og fremst koma illa við fiskvinnslufólk og brjóta niður starfsöryggi sem ekki er ásættanlegt fyrir. Fulltrúar fiskvinnslufólks hafa margítrekað komið fram með tillögur sem miða að því að draga verulega úr heimsendingum fiskvinnslufólks eins og núverandi kerfi bíður upp á og tryggja þar með starfsöryggi fiskvinnslufólks.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Voru engar aðrar tillögur uppi á borðinu til að ná fram sparnaði aðrar en fara þessa leið, fara í beina kjaraskerðingu fiskvinnslufólks? Aðalsteinn ítrekar í lok þessarar greinar í Morgunblaðinu að kjarasamningarnir séu í uppnámi og hann muni ekki undirrita kjarasamninga nema ráðherra dragi til baka boðaðar tillögur og/eða endurskoði 3. gr. laganna sem ég hef verið að vitna í.

Herra forseti. Ég á eftir að fjalla um þetta mál í félmn. En það er ástæða til þess, þegar skerða á atvinnuöryggi fólks líkt og hér stendur til, að halda til haga ályktunum á flokksþingi Framsfl., einnig vegna áforma ráðherrans um að knýja fram skerðingar á atvinnuleysisbótum í næstu viku. Ég vona sannarlega að hæstv. ráðherra sjái að sér yfir helgina og lesi fram og til baka þessar ályktanir frá fundi framsóknarmanna. Hann verður að vita hvað hann á að gera hér á þingi. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Hækka ber atvinnuleysisbætur og stefna að því að þær verði ekki lægri en lægstu launataxtar.`` --- Ekki lægri en 95 þús. kr. Þær eru núna 77 þús. kr. en það á að fara með þær niður í 60 þús. Þetta heitir að lækka, ekki hækka eins og flokksþing framsóknarmanna ályktaði. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Skoðað verði hvort mögulegt sé að atvinnuleysisbætur verði ákveðið hlutfall af launum sem hinn atvinnulausi fékk síðast greitt.``

Þetta eru ályktanir Framsfl. Maður gæti haldið að þetta væru ályktanir frá landsfundi Samf. en ekki flokksþingi Framsfl. þegar maður lítur yfir görðir ríkisstjórnarinnar á þessum fyrsta vetri. Það er reyndar svo, eins og fyrrv. félmrh. upplýsti, að ef ekki hefði verið farið í það árið 1996 af þessari ríkisstjórn að slíta tengsl atvinnuleysisbóta við það viðmið sem þá var, þá væru atvinnuleysisbætur núna 94--95 þús. kr. en ekki 77 þús. kr. Það er búið að skerða þær um 15 þús. kr. á hverjum mánuði eða 180 þús. kr. á ári. Atvinnulaust fólk munar um minna en það. Það er ástæða til að halda því til haga.

Af því að hæstv. ráðherra er að vitna til þess að þær skerðingar sem hann ætlar að fara í í næstu viku séu til að vera í samræmi við það sem gerist erlendis þá má einnig halda því til haga að atvinnuleysisbætur í Danmörku eru ekki 77 þús. kr. heldur 150 þús. kr., rúmlega helmingi hærri. Atvinnuleysisbætur í Svíþjóð, grunnbæturnar, eru 94.800 kr. Því til viðbótar fá atvinnulausir 7.216 kr. á hverjum degi fyrstu 100 dagana. Það væri kannski rétt að hæstv. ráðherra byrjaði á að hækka atvinnuleysisbæturnar áður en hann fer í svona skerðingu. En hæstv. ráðherra virðist alltaf byrja á öfugum enda alveg eins og gera á með því að skerða atvinnuleysisbætur og kalla síðan á aðila vinnumarkaðarins að borðinu til að fara í heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysisbætur. Það er ekki rétt að byrja svona, herra forseti. Það er eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi það í huga.

Það væri full ástæða til þess að fara betur í þetta mál en ég hef hér gert. Ég sé að tími minn er að verða búinn. En eitt er víst að þetta mál þarf að fá ítarlega skoðun í hv. félmn. Það þarf að senda það til umsagnar til ótal aðila þannig að hæstv. ráðherra getur ekki verið öruggur um að þetta mál fari í gegnum þingið fyrir jól. Við í stjórnarandstöðunni munum sjá til þess að það fái ítarlega umræðu í félmn. og að þeir komi að málinu sem við þetta eiga að búa. Þeir þurfa að fá að segja skoðun sína.